Innlent

Telja að um 5000 manns hafi tekið þátt í göngunni

Forsvarsmenn Grænu göngunnar telja að um fimm þúsund manns hafi tekið þátt í henni. Gangan var á vegum fimmtán samtaka um náttúru- og umhverfisvernd en hópurinn gekk aftast í kröfugöngu verkalýðsfélaganna.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag var efnt til Grænu göngunnar til að hvetja nýkjörið Alþingi til góðra verka í umhverfismálum og til að minna á að þingið hefur ekki umboð til að framfylgja virkjanastefnu á kostnað náttúrunnar.

Forsvarsmenn göngunnar segja að á því kjörtímabili sem nú er að hefjast verði teknar ákvarðanir um mörg verðmæt náttúrusvæði, t.d. Mývatn og Reykjanesskaga. Landskipulagsstefna sem geri ráð fyrir háspennulínu og virkjunum á hálendinu muni koma til afgreiðslu hjá Alþingi og fyrir liggi krafa um stórar háspennulínur m.a. á Reykjanesskaga, í Skagafirði og víðar á Norðurlandi. Krafa grænu göngunnar sé að náttúru Íslands verði hlíft.

Eftir að göngunni lauk var grænum fánum stungið niður á Austurvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×