Lífið

Ef maður er hraustur þá getur maður allt

„Já, ég hef ákveðið að slá upp partýi,“ segir Unnur Steinsson, innkaupastjóri og fegurðardrottning, spurð hvort hún ætli að halda upp á fimmtíu ára afmælið sitt í dag, og ítrekar að hún ætli að bjóða fjölskyldu, vinum og vandamönnum til veislu. „Ég held ég muni síðast eftir tólf ára afmælinu, hef ekki haldið upp á það síðan, svo minnisstætt sé, þannig að það er kominn tími til og þar sem þetta ber upp á laugardag er lítil undankomuleið. Með pressu barnanna og nánustu vina lét ég undan þrýstingi. Það verður bara gaman held ég – líka á þessum degi þegar flaggað verður fyrir mér um allan bæ og þó að eflaust verði víða partý vegna kosninganna þá verður mesta stuðið í mínu!“

Unnur er innkaupa-og vörustjóri hjá Lyfju og sér um vöruval í verslunum, markaðsmál og samskipti við birgja. „Lyfja er með svo margar verslanir að ég er svolítið á þvælingi milli búða,“ segir hún nýkomin af Suðurnesjunum í snjóbyl.

Í hesthúsið að loknum vinnudegi.

Þegar vinnudegi lýkur skiptir Unnur svo um galla og fer í hesthúsið. „Það er voða notalegt að fara algerlega í annað umhverfi og vera ein með fjórfætlingunum eða fólkinu sínu líka. Það eru margir sem stunda þetta sport innan fjölskyldunnar,“ segir hún glaðlega. Hún kveðst aðspurð vera með tvö hross á járnum. „Ég á bara tvo hesta í dag, það er alveg nóg að sýsla með þá yfir veturinn. Reyni að fara í hesthúsið á hverjum degi og það hefur viðrað svo vel í vetur að það hefði verið hægt að ríða út nánast á hverjum degi þótt ég hafi ekki gert það.“

Á eina fimm ára dóttur

Barbíleikur er líka nokkuð sem Unnur Birna ver frítíma sínum í því hún á eina fimm ára dóttur og kveðst dálítið upptekin af því. Samtals eru börnin fjögur. „Unnur Birna er elst og svo á ég tvo stráka, tuttugu og sex ára og tvítugan, og þessi litla ákvað að mæta svona í restina og halda mömmu sinni við efnið. Það er alveg dásamlegt. Enda segi ég oft við vinkonur mínar að það sé langt þangað til ég verði eins gömul og þær!“ Hún kveðst líka vera orðin amma. „Unnur Birna á eina dóttur sem er að verða tveggja ára og ég fæ oft að vera mánudagsamma. Það er nú ekki leiðinlegt. Ómetanlegt að eiga svona afleggjara.“

Unnur ólst upp á Seltjarnarnesi og átti þar heima þar til hún var þrjátíu og fimm ára. Þá flutti hún sig í hinn endann á bænum, Árbæinn, þar sem hún segir yndislegt að búa. „Þegar ég áttaði mig á því að Nesið var ekki orðið í leiðinni færði ég mig á hinn jaðarinn. Það var auðvitað hestamennskan líka sem dró mig í Árbæinn. Við förum mikið út úr bænum um helgar því við eigum hús í Stykkishólmi og það styttir leiðina að þurfa ekki að keyra í gegnum alla borgina,“ segir hún. „Við erum innan við tvo tíma að renna í Hólminn. Erum búin að eiga þetta hús þar síðan 2002 og þó að við hjónin eigum hvorugt ættir að rekja þangað þá eigum við fullt af góðum vinum þar og sækjum mikið þangað. Svo höfum við hestana okkar þar á sumrin.“

Unnur segir útiveru og sund í uppáhaldi hjá þeim hjónum og litlu dömunni. „Manni ber skylda til að hugsa um heilsuna,“ segir hún. „Aldur er bara einhver kennitala og ef maður er hraustur þá getur maður allt. Ég er svo heppin að vera heilbrigð og á tímamótum eins og þessum er við hæfi að fá að þakka fyrir það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.