Lífið

Ísland í baksýnisspeglinum - Siggi í Hjálmum flytur til Noregs

Freyr Bjarnason skrifar
„Ég er bara að flýja úr landi. Mig grunaði hvernig kosningarnar myndu fara þannig að ég hef bara hraðann á,“ segir Sigurður Guðmundsson úr Hjálmum og Memfismafíunni í léttum dúr.

Sigurður flytur til Noregs um mánaðamótin júlí/ágúst ásamt fjölskyldu sinni.

„Við ákváðum bara að prófa eitthvað nýtt og fá aðeins víðari sýn á þetta litla heimasker hérna,“ segir hann og stefnir á að búa í Ósló í að minnsta kosti tvö ár. „Ég held að það verði ágætt að hvíla sig aðeins á Íslandi í smá tíma.“

Eiginkona Sigurðar, sem er uppalin í Noregi, er komin með vinnu þar í landi og dóttir þeirra er komin með leikskólapláss. Sjálfur segist hann ekki vita hvað hann ætlar að gera. „Það er ekkert fastneglt tónlistarlega. Ég ætla bara að lenda á götunni og sjá hvað gerist.“

Aðspurður hvað verði um Hjálma segist hann ekki hafa áhyggjur af því. „Um árið vorum við að reka Hjálma með þremur Svíum sem bjuggu í Svíþjóð. Það er ekki eins og ég sé að fara yfir hálfan hnöttinn. Við erum þar að auki búnir að spila svo mikið á Íslandi að við höldum okkur aðeins til hlés. En við erum ekkert að fara að leggja upp laupana.“

Hjálmar gáfu nýverið út plötuna Dub of Doom með finnska tónlistarmanninum Jimi Tenor. „Ég er gríðarlega ánægður með hana,“ segir hann.

Í spilaranum hér fyrir ofan er hægt að hlusta á lagið Messenger of Bad News af nýju plötunni. Hægt er að nálgast hana á Tónlist.is.

Forsíðuteikning Dub of Doom, nýju plötunnar með Hjálmum og Jimi Tenor.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.