Forsaga málsins er sú að söngkonan vildi gera Biophilia-öppin (smáforritin) aðgengileg fyrir stýrikerfin Windows 8, Android og Macintosh, en kostnaður við það viðamikla verkefni var talinn nema um 75 milljónum króna.
„Þetta kostar svo rosalega mikið. Við vildum gera þetta strax í byrjun en gátum það ekki vegna þess að þetta var svo dýrt. Við hefðum þurft átta forritara í sex mánuði til að gera þetta," sagði Björk í viðtali við Fréttablaðið í fyrra, en fyrrnefnd öpp eru hönnuð til þess að börn geti lært meira um tónlist og vísindi.

Biophilia-teymið segist vera þakklátt fyrir stuðninginn og útilokar ekki frekari safnanir ef næst að lækka þróunarkostnað við verkefnið.
Yfirlýsing frá þróunarteyminu:
„Svo virðist sem kostnaðurinn hafi verið of mikill og við of bjartsýn, og þess vegna teljum við ráðlegt að bíða með söfnunina í bili. Hlutirnir virðast þó breytast hratt, og hver veit nema að ódýrara verði að endurforrita öppin í náinni framtíð."