Innlent

Aðgerðir gegn skipafélögum undirbúnar í eitt ár

St ígur Helgason skrifar
Ásbjörn Gíslason. forstjóri Samskipa, segir fyrst og fremst hafa verið lagt hald á gögn í tölvutæku formi.
Ásbjörn Gíslason. forstjóri Samskipa, segir fyrst og fremst hafa verið lagt hald á gögn í tölvutæku formi.

Samkeppniseftirlitið byrjaði fyrir um einu ári að hafa samband við samkeppnisaðila Eimskips og Samskipa til að afla gagna um mögulegt samráð og fleiri brot hjá skipafélögunum tveimur og ýmsum dótturfélögum.



Samkeppniseftirlitið (SE) hefur í um eitt ár hið minnsta undirbúið aðgerðirnar sem ráðist var í hjá Eimskipi, Samskipum og dótturfélögum þeirra í gærmorgun, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.



Starfsmenn SE hafa haft samband við fulltrúa samkeppnisaðila í geiranum til að afla gagna og upplýsinga um meint brot fyrirtækjanna og hófst sú eftirgrennslan sem áður segir fyrir um ári.



Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, staðfesti við Fréttablaðið að þar hefði athugunin beinst að þremur fyrirtækjum; Eimskipafélaginu sjálfu og dótturfyrirtækjunum TVG Zimsen, sem er svokallað flutningsmiðlunarfyrirtæki, og landflutningafyrirtækinu Flytjanda.



Sambærileg fyrirtæki eru rekin undir hatti Samskipa; flutningsmiðlunarfyrirtækið Jónar transport og Landflutningar.



Starfsmenn SE fóru ásamt lögreglumönnum inn í húsakynni fyrirtækjanna tveggja og dótturfyrirtækja í gærmorgun með dómsúrskurð upp á vasann og öfluðu þar gagna fram eftir degi.



Í tilkynningu frá SE sagði að tilgangur rannsóknarinnar væri að kanna hvort vísbendingar um ólögmætt samráð fyrirtækjanna og misnotkun á markaðsráðandi stöðu ættu við rök að styðjast.



Ekki fengust upplýsingar um það í gær hvort grunur væri um samráð á milli fyrirtækjasamsteypanna Eimskips og Samskipa eða samráð á milli móðurfélaganna og dótturfélaganna.



Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×