Innlent

Nova ríður á vaðið með 4G-þjónustu

Stígur Helgason skrifar
Ánægð Liv Bergþórsdóttir er ánægð með að vera búin að hleypa þjónustunni af stokkunum.
Ánægð Liv Bergþórsdóttir er ánægð með að vera búin að hleypa þjónustunni af stokkunum. Fréttablaðið/gva
Nova hóf í gær, á fjórða degi fjórða mánaðar ársins, að bjóða upp á svokallaða 4G-netþjónustu, fyrst fjarskiptafyrirtækja.

Þetta gerist daginn eftir að Nova fékk formlega úthlutað rekstrarleyfi fyrir 4G-þjónustuna, þráðlausa háhraða nettengingu sem styður yfir 100 megabæta hraða á sekúndu.

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, segir þjónustuna á sama verði og 3G-þjónustan hefur verið hingað til. „Við erum mjög stolt af því að geta boðið upp á þetta svona snemma,“ segir Liv.

Þrjú önnur fyrirtæki fengu úthlutað leyfi til rekstrar 4G-kerfis, Vodafone, Síminn og 365.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að þar verði slíkt kerfi tekið í gagnið þegar líði á árið. „Auk þess verður hraðinn um 3G-kerfið tvíefldur strax í sumar. Það þýðir að hann nær 42 Mb/s og því svipaður 4G-hraðanum. Ástæða þess að við hjá Símanum eflum 3G áfram þrátt fyrir tilkomu 4G-tækninnar er að enn sem komið er styðja fá símtæki og tölvur 4G-tæknina,“ segir hún.

Hrannar Pétursson, talsmaður Vodafone, segir að þar sé stefnt að því að fara af stað með 4G í sumar.

„Það liggur ekki fyrir tímasetning á 4G-þjónustunni okkar – sú uppbygging hefur ekki farið fram,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365. „Sú þjónusta sem við komum með fljótlega mun byggja á þeim dreifikerfum sem fyrir eru.“- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×