Innlent

Fimmta hjólið undir stólinn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Maður sem lamaðist fyrir neðan mitti fyrir átta árum sér fram á að geta komist mun víðar en áður á hjólastólnum sínum eftir að fimmta hjólið var sett undir.

Við hittum Hvanneyringinn Andrés Ólafsson í desember í fyrra þegar hann hóf söfnun fyrir fimmta hjólinu undir hjólastólinn sinn sem gerir það að verkum að stóllinn kemst mun víðar en áður. Söfnunin gekk vonum framar, Andrés keypti búnaðinn sem til þurfti og stóllinn, sem er knúinn áfram á framhjólinu var tilbúinn til notkunar í dag.

„Það er talsvert léttara að ferðast um í möl og malarplönum og yfirhöfuð að vera úti."

Og Andrés segist sáttur með útkomuna:

„Ég er bara eins sáttur og hægt er held ég. Það er ekkert hægt annað. Og meðan ég man þá vil ég hjartanlega þakka öllum sem lögðu mér lið í þessu." Andrés segir kostnaðinn við hjólið töluverðan.

„Ja, þetta kostaði um sexhundruð þúsund kall, þannig að það er ekki hlaupið til og svona græja keypt þegar maður er í minni stöðu."

Andrés, sem er fyrrverandi björgunarsveitarmaður sem lamaðist í bílslysi árið 2005, sér nú fram á að komast mun víðar á stólnum en áður. Hann segir það skipta sig gríðarlegu máli að eiga meiri kost á útiveru.

„Að anda að sér fersku lofti í staðinn fyrir að sitja inni í bíl og fitna. Það er víst sagt að það sé orðið meginvandamál í heiminum í dag að maður fitni of mikið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×