Skoðun

Hver á að sinna þeim?

Magnús Baldursson skrifar
Það er áhyggjuefni að sú staða hefur skapast að tveir hópar barna í samfélaginu fá ekki þá þjónustu frá heilbrigðiskerfinu sem þau þarfnast.

Annars vegar eru þetta börn sem hafa hamlandi einhverfueinkenni en eru ekki það greindarskert að þau falli undir skilgreindan markhóp Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Þessum börnum var hægt að vísa í fullnaðargreiningu á einhverfusviði Greiningarstöðvar en eftir að það breyttist hefur verið skortur á viðhlítandi greiningar- og ráðgjafarúrræðum.

Fáeinum er þó vísað á Barna- og unglingageðdeild LSH en það á einungis við um þau sem auk einhverfurófsröskunar búa við flókinn og fjölþættan vanda af öðrum toga.

Erfiðleikar þessara barna geta verið verulega hamlandi þótt greindarfarslega standi þau ágætlega. Mörg þeirra hafa litla aðlögunarhæfni, eiga í erfiðleikum með félagsleg samskipti og sérkennileg og áráttukennd hegðun getur valdið ýmsum erfiðleikum. Hvað hinn hópinn varðar er varla hægt að segja að hann hafi nokkurn tíma fengið viðeigandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Þar er um að ræða börn á aldrinum 12-18 ára með sterkar vísbendingar um athyglisbrest (ADHD). Þau þarfnast greiningar á vandanum og að þeim standi til boða úrræði sem gagnast einstaklingum með ADHD. Það sama á við um þennan hóp og þann fyrri að ef aðrir alvarlegir erfiðleikar eru til staðar væri hægt að láta reyna á tilvísun á Barna- og unglingageðdeild. Flest þessara barna eru hins vegar með „vægari“ vanda og eiga ekki tilkall til þjónustu Barna- og unglingageðdeildar.

Varla líðandi

Þetta er varla líðandi í því velferðarsamfélagi sem við viljum státa okkur af. Í öðru tilfellinu er aldur látinn ráða því að úrræði sé ekki fyrir hendi en í hinu tilfellinu þroski barnsins þótt sýnt sé að erfiðleikar þess snúi að öðru en eiginlegri þroskastöðu. Myndum við sætta okkur við að stjórnendur heilbrigðiskerfsins ákveddu að þunglyndi væri ekki meðhöndlað hjá fólki sem væri eldra en sjötíu ára? Gætum við sætt okkur við að ákveðið yrði að fólk sem hefði eðlilega greind en væri frá vinnu vegna kvíðaröskunar fengi ekki viðeigandi heilbrigðisþjónustu?

Við þetta er margt að athuga. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna benti árið 2011 á ágalla í geðheilbrigðisþjónustu barna á Íslandi. Nefndarmenn höfðu meðal annars áhyggjur af löngum biðlistum eftir greiningu og meðferð. Mælst var til að geðheilbrigðisþjónusta við börn yrði efld og þeim tryggður betri aðgangur að greiningum og þeirri meðferð sem þörf væri á. Að auka ætti vægi sálfræðimeðferðar, efla fræðslu og félagsleg úrræði og styðja betur við foreldra og kennara (sjá gr. 38 og 39). Einnig má benda á að þetta ástand kemur illa saman við 3 gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er ein af grundvallargreinum sáttmálans.

Biðtími lengist

Frá árinu 2002 hefur greiningu á ADHD verið sinnt á Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar fyrir börn að 12 ára aldri. Þar fer líka fram frumgreining á frávikum í þroska og hegðun yngri barna. Auk þessa er boðið upp á einstaklingsráðgjöf, uppeldisnámskeið fyrir foreldra, námskeið fyrir foreldra barna með ADHD og sérstakt námskeið fyrir börn með ADHD þar sem meðal annars er unnið með einbeitingu og félagsfærni. Takmörkun þjónustunnar við 12 ára aldur stafar að verulegu leyti af þeirri fjárveitingu sem fæst til starfseminnar. Ógerlegt er miðað við núverandi mannafla að útvíkka þjónustuna til elsta aldurshópsins á sama tíma og biðtími lengist fyrir núverandi skjólstæðinga ár frá ári. Hjá starfsfólki Þroska- og hegðunarstöðvar er fullur vilji til að koma til móts við þessa hópa í faglegu samstarfi við aðrar stofnanir sem koma að málum barna með þroska-, hegðunar og geðvanda.

Mikilvægt er að þeir sem hafa fjárveitingavaldið fari að huga að þörfum þessara barna. Ákveðið verði hvar þeim skuli sinnt og komið sé sem fyrst á þeim úrræðum sem þau eiga sannarlega heimtingu á.




Skoðun

Sjá meira


×