Innlent

Gagnrýnir boðaðar breytingar á rammaáætlun

Höskuldur Kári Schram skrifar
Breytingar á rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda er á málefnaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir næsta vorþing. Verkefnisstjórn hefur þegar hafið störf og er áætlað að hún skili tillögum 15. febrúar á næsta ári.

Bæði framsóknar- og sjálfstæðismenn lýstu því yfir á síðasta kjörtímabili að þeir vilji gera breytingar á rammáætlun. Um er að ræða átta virkjunarkosti sem nú eru í biðflokki. Þrír í Þjórsá, Skrokkölduvirkjun í Köldukvísl, tveir áfangar í Hágönguvirkjun og svo Hólmsá og Hagavatn.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að á fundi umhverfisnefndar Alþingis í vikunni hafi verið upplýst að ráðherra hyggist leggja fram tillögur að breytingum á næsta vorþingi. Katrín er gestur i þættinum Pólitíkin á vísir.is.

„Við höfum alltaf lagt áherslu á það í minni hreyfingu að rammaáætlun sé þessi vettvangur þar sem hægt er að ná sátt um verndun og nýtingu. Það þýðir að rammaáætlunin sem var samþykkt á þinginu er ekki endilega draumaáætlun mín. Ég sé ekki þá þörf að virkja öll þau svæði sem þar eru sett í nýtingarflokk og hefði viljað sjá miklu meira fara upp í verndarflokk. Þetta var málamiðlum. Ég hefði viljað sjá meiri frið um vinnulag og að menn væru ekki að ýta eftir því að fá fleiri kosti inn í nýtingarflokk sem væntanlega knýr þennan hraða sem nú er búið að setja í þessa vinnu. Ástæðan fyrir þvi´að kostir eru settir í biðflokk er að það skortir rannsóknir. Og nú horfum við upp á að það hafa ekki einu sinni verið skipaðir nýir faghópra. Það á eftir að ljúka rannsóknum til að hægt sé að taka endanlega ákvörðun þannig að ég hef miklar áhyggur af því að þetta náist bara ekki,“ segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×