Innlent

IKEA eða dauði?

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Leikurinn Ikea eða dauði? hefur slegið í gegn frá því að hann kom út á miðvikudaginn.
Leikurinn Ikea eða dauði? hefur slegið í gegn frá því að hann kom út á miðvikudaginn. Mynd/skjáskot
Internetleikurinn "Ikea eða dauði?" hefur vakið mikla athygli frá því að leikurinn kom út á miðvikudaginn. Snýst leikurinn einfaldlega um það að ákveða hvort ákveðin nöfn, eins og Absu og Klubbo, séu heiti á dauðarokkssveitum eða húsgögnum frá sænsku húsgagnakeðjunni.

Leikurinn var hannaður af fimm hönnuðum hjá markaðsfyrirtækinu Gatesman+Dave í Pennsylvaníu. Vinsældir leiksins voru svo miklar að tölvukerfi fyrirtækisins hrundi.

Hugmyndina fengu þeir Jeff Barton og Sam Panico þegar þeir skruppu í Ikea til þess að kaupa ný húsgögn fyrir höfuðstöðvar Gatesman+Dave, en Panico hafði aldrei áður stigið fæti inn í verslanir Ikea.

„Ég verð einhleypur að eilífu og á engin börn svo ég hef bara enga þörf fyrir það að fara í Ikea," sagði Panico, sem sjálfur segist aðdáandi dauðarokkssveita. Hann segir að hann hafi ekki einblínt á ódýru verðin í versluninni heldur á nöfnin á húsgögnunum sem að minntu hann lygilega mikið á nöfn dauðarokkssveita. Því næst hóf hann upp raust sína og söng heiti húsgagnanna með dauðarokkssröddu.

„Norden er til dæmis borð í Ikea en Norden er líka metallistamaður," útskýrði Panico, og bætti við að borðið Lack gæti alveg eins verið þungarokkssveit. "Ég vildi óska þess að hljómsveitin mín héti Lack."

Leikinn athyglisverða má prófa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×