Innlent

Kynferðisbrotadómur yfir óhefðbundna nuddaranum ómerktur

Hæstiréttur Íslands ómerkti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa sett fingur sinn inn í leggöng konu sem hann var að nudda.

Konan leitaði til nuddarans í júní árið 2012 vegna verkja í mjóbaki. Fyrst í stað var um eðlilegt nudd að ræða þar sem konan lá á maganum og maðurinn nuddaði á henni bakið. Nuddið tók þó nokkuð óvænta stefnu þegar nuddarinn bað konuna að leggjast á bakið, fara úr nærbuxunum og byrjaði að nudda á henni brjóstin og klofið. Að lokum rataði svo fingur hans inn í leggöng konunnar.

Nuddarinn bar því við að hann hefði verið að beita nýrri óhefðbundinni aðferð til að taka á verkjum í mjóbakinu. Hann hafi ætlað að nudda hana í kringum mjaðmirnar að framanverðu enda sé það svæði miðpunktur líkamans. Hann hélt því fram að aðferðin væri krefjandi og fingur hans hefði fyrir slysni runnið á olíuborinni húðinni og ratað inn í leggöng konunnar.

Nuddarinn lærði út í Bandaríkjunum og vildi að um sérstaka aðferð væri að ræða. Hann fór fram á að sérfróðir matsmenn skiluðu áliti um það hvort aðferð nuddarans væri viðurkennd aðferð í nuddfræðum. Ákæruvaldið lagðist ekki sérstaklega gegn þessu, en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þessu, og sagði í dóminu að ekki yrði séð að álit dómkvaddra manna  „skipti máli fyrir störf dómsins við að komast að niðurstöðu um þessi álitamál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×