Viðskipti innlent

Slegist um fraktrými í vélum til Ameríku

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bandaríska verslanakeðjan Whole Foods Market selur meðal annars íslenskt lambakjöt.
Bandaríska verslanakeðjan Whole Foods Market selur meðal annars íslenskt lambakjöt. Mynd/Baldvin Jónsson.
„Burðargetan úr landi er takmörkuð því í dag fara ekki nema ein til tvær fraktvélar á viku til Bandaríkjanna en það fóru fleiri á árunum fyrir hrun,“ segir Svavar Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri útflutningsfyrirtækisins Sæmarks, sem selur ferskan fisk til Bandaríkjanna.

Svavar segir þessa fækkun í ferðum fraktvéla hafa leitt til þess að útflutningur fyrirtækisins til Bandaríkjanna sé nú minni en hann gæti annars verið.

„Við erum eins og önnur fyrirtæki í þessum geira að berjast fyrir því að koma ferskum fiski til Bandaríkjanna á meðan það er eftirspurn eftir vörunni, og því er þessi takmarkaða burðargeta ekki að hjálpa til,“ segir Svavar.

„Það er slegist um plássin vestur um haf því sala á fiski hefur aukist töluvert mikið og kjötið er eingöngu á haustin og því þurfa sumir frá að hverfa á vissum árstímum,“ segir Baldvin Jónsson. Hann hefur síðastliðin átta ár haft milligöngu um sölu á íslenskum matvælum til Bandaríkjanna. Þar má nefna vörur eins og skyr, osta og lambakjöt, sem seldar eru í verslunum Whole Foods Market.

Baldvin nefnir sem dæmi að starfsmenn íslensks fyrirtækis hafi farið með tvö hundruð kassa af lambakjöti út á Keflavíkurflugvöll, en sökum plássleysis hafi þeir þurft að fara með hluta sendingarinnar aftur til Reykjavíkur.

„Þá kom flugstjórinn og sagði að það væri mótvindur og að það þyrfti því að draga úr þyngd vélarinnar. Þá þurftu þeir að taka 70 kassa úr vélinni og þá stemmdu útflutningspappírarnir ekki þegar kjötið kom til Bandaríkjanna. Þetta getur því valdið töfum á sendingum og þá fer mikilvægt geymsluþol matvælanna til spillis,“ segir Baldvin.

Mikael Tal Grétarsson, forstöðumaður útflutnings hjá Icelandair Cargo, segir það rétt að eftirspurn eftir fraktflugi til Bandaríkjanna geti oft verið meiri en framboðið.

„Á heildina litið hefur okkur hins vegar gengið vel að anna eftirspurn. Hún sveiflast eftir árstíðum og vikudögum og framboðið hjá okkur er mest yfir sumartímann. En við eigum erfiðara með að fljúga jafn oft og áður því innflutningur með flugvélum er ekki eins mikill og fyrir nokkrum árum. Við gætum hugsanlega flogið fleiri ferðir út en þá myndu vélarnar koma tómar til baka og þá myndi kostnaðurinn við innflutninginn lenda á útflytjendum, sem þeir skiljanlega vilja ekki borga,“ segir Mikael.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×