Innlent

Brotið á íslenskum börnum á hverjum degi: „Ég fæ daglega mörg símtöl út af þessu"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Vanræksla og ofbeldi í íslenska skólakerfinu hefur verið "tabú“, en er engu að síður til staðar. Dæmi eru um að kennarar beiti nemendur ofbeldi eða leggi þá í einelti án þess að brugðist sé við með fullnægjandi hætti. Enginn heldur utan um tölur um kvartanir nemenda eða forráðamanna gagnvart skólunum og viðbrögð í slíkum málum virðast tilviljunarkennd.

Stefán Karl Stefánsson, stofnandi og formaður Regnbogabarna, segir aðferðir kennara og skólastjórnenda stundum mjög vafasamar og engan veginn í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eða barnalög á Íslandi. Hann segir brotið á íslenskum börnum á hverjum degi.

„Það er alveg klárt mál. Ég fæ til mín, sérstaklega núna þegar skólarnir eru að byrja, sex til átta símtöl á dag þar sem foreldrar eru að kvarta yfir því að brotið sé á börnunum þeirra.“

Stefán segir börn mállaus þegar brotið sé á þeim í skólakerfinu. „Þau kvarta og segja að þau séu beitt ofbeldi, þau séu lögð í einelti eða að alltaf sé verið að skamma þau en alltof oft eru þau bara sussuð út í horn og sagt að vera ekki með þessi læti. Þau eigi ekki að segja svona ljóta hluti um kennarana sína eða skólann sinn. Við þurfum að laga þetta því ég fæ daglega mörg símtöl út af þessu, því miður.“

Í grunnskólalögum segir: „Starfsfólk grunnskóla skal rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki.“

Þótt flestir vilji vel eru því miður til dæmi þar sem þessum ákvæðum er ekki fylgt og lítið hefur verið rætt um þetta vandamál.

„Þetta er tabú og mjög erfitt að ræða þetta því það er mjög erfitt að standa andspænis skólastjóra eða kennara og segja: Þú ert ekki starfi þínu vaxinn. Það er mjög erfitt en það þarf einhver að gera það, því ef það er ekki gert þá bara heldur þetta áfram,“ segir Stefán.

Nánar var fjallað um málið í Íslandi í dag í kvöld, og rætt meðal annars við móður stúlku sem segir kennara sinn hafa lagt sig í einelti í tvö ár. Sjá má þáttinn hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×