Innlent

Saknar saumavélar ömmu sinnar

Hjörtur Júlíus Hjartarson skrifar
Geirmundur Vilhjálmsson, fyrrverandi fangelsisstjóri á Kvíabryggju segir Pál Winkel, forstjóra fangelsimálstofnunnar, neita að afhenda sér persónulega muni sem urðu eftir á hans gamla vinnustað. Páll vísar ásökunum Geirmundar á bug.

Geirmundur Vilhjálmsson, fyrrverandi fangelsisstjóri á Kvíabryggju segir Pál Winkel, forstjóra fangelsimálstofnunnar, neita að afhenda sér persónulega muni sem urðu eftir á hans gamla vinnustað. Páll vísar ásökunum Geirmundar á bug.

Geirmundur var fangelsisstjóri á Kvíabryggju í nærri tíu ár. Honum var, árið 2010, vikið úr starfi fyrir fjárdrátt og fyrir það brot var hann að auki dæmdur í 8 mánaða fangelsi. Geirmundur hefur undanfarið reynt að endurheimta persónulega muni frá Kvíabryggju, án árangurs. Á Facebook síðu sína skrifaði Geirmundur nýverið, Gaman væri að fá eitthvað af mínu persónulega dóti sem er á Kvíabryggju en ég held að það verði ekki meðan Páll er fangelsismálastjóri og heldur Kvíabryggju í herkví.

„Það er bara ákvörðun Páls Winkels að ég fái ekki þessa hluti. Þetta eru cross-trainer, gömul kerra, harðfisksmarningsvél, gömul saumavél eftir ömmu mína," segir Geirmundur. Hann staðfestir að ekki séu til nótur fyrir þessum hlutum.

Páll Winkel, forstjóri fangelsismálastofnunnar ríksins, gefur lítið fyrir kröfur forstöðumannsins fyrrverandi. Hann segir að undir stjórn Geirmundar hafi óreiðan verið mikil á Kvíabryggju. Til að mynda hafi verið þar margir hlutir sem á engan hátt tengdust rekstri fangelsins og erfitt sé að meta hver eigi.

„Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að menn sem hafa verið dæmdir fyrir fjárdrátt og brot í opinberu starfi sem forstöðumenn fangelsa, að þeir geti sýnt fram á eignarhald á hlutum sem þeir telja sig eiga, hvort sem það eru saumavélar, bílvélar eða friðaðir fuglar eða annað. Það kom nú einmitt fram í dómnum yfir honum að þarna var nú bókhald og annað ekki í lagi og hlutir sem enginn getur sýnt fram á hver átti."

Geirmundur hyggst ekki berjast lengi eða mikið fyrir þeim hlutum sem hann telur sig eiga á Kvíabryggju.

„Ef að ráðherra getur ekkert gert fyrir mig þá má bara Páll eiga þetta og saumavél ömmu minnar og allt þetta gamla dót."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×