Innlent

Sigmundur segir enga fundi tímasetta

Þorgils Jónsson skrifar
Formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa ekki ráðgert fundi í dag en þeir hafa fundað tvisvar síðan Sigmundur Davíð fékk stjórnarmyndunarumboðið. Fréttablaðið/valli
Formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa ekki ráðgert fundi í dag en þeir hafa fundað tvisvar síðan Sigmundur Davíð fékk stjórnarmyndunarumboðið. Fréttablaðið/valli
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í gær að engir fundir hefðu verið tímasettir í dag um hugsanlega stjórnarmyndun. „Menn eru að skoða málin og munu eflaust heyrast í framhaldi af því,“ sagði Sigmundur í svari til Fréttablaðsins.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarkona Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að Bjarni hefði ekki fastbókað neina fundi í dag.

Sigmundur og Bjarni funduðu öðru sinni í gær og ræddu þeir meðal annars, að því er Sigmundur sagði í viðtali á Bylgjunni í gær, nánari útfærslur á hugmyndum Framsóknarmanna um úrlausn í skuldamálum heimilanna.

Sigmundur hefur hitt alla forvígismenn flokkanna á þingi með það að markmiði að kanna viðræðugrundvöll um skuldamálin, „vegna þess að það er til lítils að fara í langar og miklar viðræður ef það er engin samstaða um skuldamálin“, eins og hann sagði á Bylgjunni.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×