Innlent

Þvinguðu mann upp í bíl og sökuðu hann um þjófnað

Búið er að taka skýrslu af fórnarlambi fjögurra manna sem réðust að honum með hafnaboltakylfu og neyddu upp í bíl með sér í nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kópavogi óku mennirnir upp að fórnarlambi sínu í Mjóddinni þar sem þeir neyddu hann upp í bíl. Ástæðan fyrir ágreiningnum var sú að mennirnir sökuðu fórnarlambið um að hafa tekið hluti ófrjálsri hendi á heimili í Keflavík síðustu helgi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu neitar maðurinn að hafa stolið hlutunum.

Lögreglan fann mennina skömmu eftir að þeir þvinguðu fórnarlambið upp í bílinn og handtók þá. Fórnarlambið var flutt á spítala til skoðunar en hann reyndist ekki slasaður.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Mennirnir voru í annarlegu ástandi og voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna. Enn á eftir að yfirheyra þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×