Innlent

Sigmundur Davíð ætlar að heyra í forsetanum í næstu viku

Karen Kjartansdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins, reiknar með að vera í ágætu sambandi við forseta Íslands áður en hann ákveður með hverjum hann gengur til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna. Hann ætlar að flýta sér hægt og gerir ekki ráð fyrir að heyra í forsetanum um málið fyrr en í seinni hluta næstu viku.

Það bíða allir spenntir eftir ákvörðun Sigmundar Davíðs þessa dagana. Sigmundur virðist hins vegar ekkert vera drífa sig. Þannig var enginn formlegur fundur haldin í dag milli hans og annarra formanna og enn hafa viðræður um ríkisstjórnarsamstarf ekki hafist. 

„Við höfum lagt á það áherslu að menn í næstu ríkisstjórn verði að taka á þessum skuldavanda heimilanna og nýta það tækifæri sem menn standa frammi fyrir núna. Það má ekki kasta því tækifæri á glæ."

Sigmundur segir aðgerðirnar eiga að vera almennra og því væntanlega líka taka til þeirra sem ekki eru í greiðsluvanda. Þetta snúist um að bæta fólki það tjón sem það varð fyrir vegna framferðis fjármálafyrirtækja sem fóru í þrot og verið er að gera upp. Í raun megi segja að þetta sé seinni hlutinn af neyðarlögunum.

„Samlíkingin við neyðarlögin er mjög góð því þau voru í raun bara fyrr hlutinn af þessu þá var ekkert spurt um þá sem áttu ekkert eða jafnvel minna en ekki neitt heldur skulduðu. Eignir voru varðar og notað til þess fjármagn úr þrotabúunum og það er eðlilegt að fylgja því eftir með því að koma til móts við þá sem skulda þegar klárað er að gera upp þessi þrotabú."

En hvað þurfa hinir formennirnir að sættast á?

„Við höfum leitast við að sýna fram á að það sé hægt að ná markmiðinu og fjármagna það en verið hins vegar opin fyrir því að vinna útfærsluna með öðrum. Það gerum við svona í ljósi reynslunnar því þegar 20% leiðin var rædd á sínum tíma fór öll að snúast um smáatriði í útfærslunni og aðrir gátu ekki sæst á hana því hún kom frá okkur. Þess vegna segjum við núna, við skulum bara sameinast um bestu útfærsluna."

Og miðað við forsíðufrétt Financial Times í gær virðast kröfuhafar vera meðvitaðir um að minni heimtur verði í ljósi niðurstöðu kosninganna. Einnig er vitnað til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um að þessi afsláttur gæti orðið allt að 75% af krónueignum þessara kröfuhafa hér á landi.

„Svoleiðis að þetta er fyrst og fremst staðfesting á því sem við höfum verið að benda á. Mikilvægi þess fyrir þá ekki síður að semja og ná ástættanlegri niðurstöðu. Það er í raun öllum í hag að komast að niðustöðu í þessu. Þá getur Ísland náð sér á strik aftur og þeir losna við sitt. En hvernig verður komið í veg fyrir að þetta verði álitin eignaupptaka."

Vilji annarra formanna til að vinna að markmiðinu um að bæta skuldavanda Íslenskra heimilanna og skoða útfærslur á því sé það sem helst þurfi til að viðræður um stjórnarmyndun geti farið af stað.

En þegar þú ert tilbúinn til viðræðna, muntu þá tilkynna forseta Íslands það fyrst?

„Ég geri ráð fyrir að við verðum í ágætis sambandi með þetta, hann tók það sérstaklega fram að þessu væri ekki sett nein tímamörk og gerði ráð fyrir að við myndum heyrast í seinni hluta næstu viku, svo hann gerir sér grein fyrir því að þetta geti allt tekið tíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×