Lífið

Heiðrar minningu móður sinnar

Sara McMahon skrifar
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir býr til origami-óróa til styrktar Krabbameinsfélaginu. 
Mynd/Vilhelm
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir býr til origami-óróa til styrktar Krabbameinsfélaginu. Mynd/Vilhelm
„Sagan segir að ef maður býr til þúsund origami-trönur fái maður eina ósk. Ég var ákveðin í því að óskin færi til mömmu,“ segir Guðrún Þóra Gunnarsdóttir. Hún býr til óróa úr origami-trönum sem hún selur til styrktar Krabbameinsfélaginu, en hún missti móður sína úr krabbameini 3. maí árið 2008.

„Mamma greindist fyrst með brjóstakrabbamein árið 2000. Síðasta árið sem hún var veik bjó ég til origami-trönur. Ég var staðráðin í að gera þúsund trönur til að fá óskina og á sama tíma varð origami-gerðin mér haldreipi í gegnum erfiða tíma.“ Eftir að móðir hennar lést fóru trönurnar í kassa þar sem þær voru geymdar þar til nú. „Mér fannst tími til kominn að halda minningu mömmu á lofti, frelsa fuglana og láta gott af mér leiða í leiðinni,“ segir Guðrún.

Hún lærði origami-listina af vinkonu sinni þegar hún var sautján ára gömul en sú hafði lært listina af tengdamóður sinni sem var japönsk.

„Tengdamamma vinkonu minnar, Takoko Inaba, kenndi henni að gera þetta. Takoko var japönsk og dó árið 2004, einnig úr krabbameini. Þetta er líka gert til að heiðra minningu hennar.“



Fimm dagar eru síðan Guðrún hóf að selja óróana og hafa viðtökurnar verið framar hennar björtustu vonum. „Pantanirnar eru endalausar og miklu fleiri en ég bjóst við,“ segir hún að lokum. Áhugasamir geta pantað óróa á Facebook-síðunni Origami óróar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.