Innlent

Rétt slapp úr stígvéli áður en stiginn át það

Sunna skrifar
Aníta Gló haltrar enn eftir að hafa fest stígvélið sitt í rúllustiga rétt fyrir jól. Móðir hennar náði naumlega að koma henni úr stígvélinu áður en það gjöreyðilagðist.
Fréttablaðið/Anton
Aníta Gló haltrar enn eftir að hafa fest stígvélið sitt í rúllustiga rétt fyrir jól. Móðir hennar náði naumlega að koma henni úr stígvélinu áður en það gjöreyðilagðist. Fréttablaðið/Anton
„Ég heyrði nuddhljóð í gúmmíi og fór þá að toga í hana, en áttaði mig þá á því að hún var pikkföst. Trappan hafði læst sig í stígvélið hennar sem festist meira eftir því sem við komum neðar. Ég náði að kippa henni úr á endanum en þá hélt stígvélið áfram og rifnaði í sundur.“

Þetta segir Aðalheiður Jensen, móðir hinnar rúmlega tveggja ára gömlu Anítu Glóar, um heldur óskemmtilegt atvik sem átti sér stað í rúllustiganum í verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði skömmu fyrir jól. „Ég brást við eins og sönn móðir og fór að öskra. Hún varð ekkert vör við þetta sjálf fyrr en ég fór að tosa í hana.“

Mæðgurnar voru á leið niður rúllustigann í Firði þegar stígvél Anítu festist í stiganum. Móðir hennar náði naumlega að koma stúlkunni úr stígvélinu, en það hélt áfram með stiganum eins og áður sagði og rifnaði í sundur. Því var mikil mildi að ekki fór verr.

„Henni brá mjög mikið og var óhuggandi alveg þar til hún sofnaði,“ segir Aðalheiður. „Ég hélt líka að hún væri í molum því ég togaði svo fast í hana, svo ég fór með hana á heilsugæslustöðina. Það er allt í lagi með beinin en hún haltrar enn þá og er með ör á kálfanum eftir rúllustigann.“

Hún hefur ekki farið með Anítu litlu í rúllustiga eftir atvikið. „Það verður haldið á henni hér eftir.“

Þetta er í annað sinn á nokkrum árum sem svona slys gerist í rúllustiganum í Firði, að sögn Alberts Más Steingrímssonar framkvæmdastjóra. Fyrra skiptið var um að ræða barn í fylgd með afa sínum og var það einnig í stígvéli.

„Það er í raun ekki hægt að gera neinar breytingar á stiganum,“ segir Albert. „Það er gul lína aftast sem maður á að standa fyrir framan og það verður bara að reyna að fara eftir því.“

Stiginn var tekinn út af Vinnueftirlitinu í nóvember eða desember síðastliðnum og var í hundrað prósent lagi, að sögn Alberts. Hann bendir á að gúmmístígvél séu þó sérstaklega slæm hvað þetta varðar, þar sem gúmmíið getur verið verulega stamt og því fest í stiganum.

„Þetta er eitt af þessum slysum sem gerast og því miður ekkert hægt að lagfæra nema passa sig betur,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×