Innlent

Mengunarslys gjörbreytti lífi skipverja á Röðli

Karen Kjartansdóttir skrifar
Dánartíðni skipverja sem lentu í einu stærsta mengunarslysi íslenskrar sjómannasögu er tvöfallt hærri en gerist meðal sambærilegra áhafna. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn. Einn efirlifendanna segir atburðinn hafa markað sig fyrir lífstíð.

15. janúar verða nákvæmlega 50 ár liðin frá því togarinn Röðull GK lét úr höfn. Skipið átti að vera á veiðum í mánuð. Á þriðja degi fór að bera á undarlegum veikindum meðal hásetanna. Töldu yfirmenn að þetta væri matareitrun eða timburmenn.

Að kvöldi næsta dags var ungur háseti kominn með krampaköst og var ákveðið að halda í næstu höfn í Vestmannaeyjum. Hann lést áður en skipið kom að landi og voru fleiri mjög veikir. Í ljós kom að kom að um var að ræða eitrun frá kælikerfi skipsins sem lak methylklóríði inn í vistarverur hásetanna.

Eftir umfjöllun Páls Ásgeirs Ásgeirssonar, þáverandi blaðamanns á sjómannablaðinu Ægi, hóf Vilhjálmur Rafnsson, sem þá var læknir hjá Vinnueftirliti ríkisins, að kanna áhrif menguninnar á heilsufar skipverja á Röðli. Vilhjálmur er nú prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og þar kynnti hann niðurstöður á dánarmeinum skipverjanna í dag.

"Það kemur í ljós að dánartíðni Röðulsmanna er tvöfallt meiri en samsvarandi áhafna frá öðrum skipum. Þegar maður lítur á einstök dánarmein þá eru bráðir hjartasjúkdómar og heilablæðingar sem eru mjög áberandi og þetta á líka við um sjálfsvígin," segir Vilhjálmur.

Bárður Árni Steingrímsson var sautján ára þegar slysið varð. Hann er einn sjö manna sem enn lifa og voru um borð á Röðli þegar slysið varð.

"Þetta gjörbreytti öllu mínu lífi. Það umhverfðist. Ég var í átta mánuði á heilsuverndarstöðinni á Barónsstígnum. Ég missti hárið, sjónina og lamaðist fyrir neðan mitti," segir hann.

Bárður segir trúna á Jesú hafa hjálpað sér. Hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum þremur árum eftir slysið og segist vera lifandi kraftaverk.

"Þetta er eitt það hörmulegasta sjóslys Íslandssögunnar sem enginn kann að segja frá. Það var þungur sjór en það braut ekki á báru og það vissi enginn hvað var um að vera en við vorum allir að deyja. Það leiðinlegasta við þetta var að þegar við komum til Eyja vorum við settir í sóttkví og máttum ekki fara upp í súrefnið. Það vissi enginn hvað var að gerast," segir hann.

Mennirnir glímdu margir árum saman við ofskynjanir og depurð.

"Bráðaeitrunin og langtímaafleiðingarnar komu fram með geðrænum breytingum, persónuleikabreytingum og geðlægðum sem þessir menn áttu við að stríða svo árum skipti," segir Vilhjálmur.

Hann segir sögu skipveranna á Röðli eiga erindi við fólk enn í dag.

"Það getur vel verið að áhrif eitranna séu vanmetin. Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig það er í stærri hópum sem hafa orðið fyrir minni mengun en er í þessu dæmi," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×