Innlent

Segir Fyrirtækjaskrá hafa verið blekkta

Stígur Helgason skrifar
Frá upphafi aðalmeðferðarinnar í gær.
Frá upphafi aðalmeðferðarinnar í gær. Mynd/ Stefán.
„Ég lít þannig á að skráin hafi verið vísvitandi blekkt. Það er ekki hægt að líta á þessa tilkynningu með öðrum hætti," sagði Skúli Jónsson, forstöðumaður Fyrirtækjaskrár, fyrir dómi í morgun um fimmtíu milljarða hlutafjárhækkun Existu í desember 2008 og tilkynningu sem lögmaðurinn Bjarnfreður Ólafsson sendi Fyrirtækjaskrá um hana.

Skúli var fyrstur manna í vitnastúku í morgun á öðrum degi aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Existu, og Bjarnfreði fyrir brot á hlutafélagalögum. Málið snýst um að einungis hafi verið greiddur einn milljarður fyrir fimmtíu milljarða hlutafjárhækkunina, sem sé andstætt 16. grein hlutafélagalaga um að ekki megi greiða minna en nafnverð fyrir hluti.

Skúli sagði fyrir dómnum að 16. greinin var algjörlega ótvíræð. Það væri „kristaltært og enginn vafi á því" að greiða þyrfti fimmtíu milljarða fyrir fimmtíu milljarða hlutafjárhækkun. Engar undanþágur væru á þeirri reglu, sem væri grundvallarregla í félagarétti.

Hófst með símtali frá blaðamanni Viðskiptablaðsins

Skúli segist fyrst hafa áttað sig á því að ekki væri allt með felldu snemmsumars 2009 þegar hann fékk símtal frá blaðamanni Viðskiptablaðsins. Blaðamaðurinn hafi verið að spyrjast fyrir um hlutafjáraukninguna og tilkynninguna um hana, sem honum hafi þótt einkennileg. Skúli hafi þá skoðað tilkynninguna sjálfur í fyrsta sinn. „Þá sé ég að þetta er fjarri því að vera í lagi," segir Skúli. Honum hafi brugðið mjög að sjá að þetta hafi verið samþykkt á sínum tíma, enda hafi ekki verið samræmi á milli tilkynningarinnar og efnis skýrslunnar frá Deloitte, sem fylgdi henni.

„Ég tók eftir því strax að skýrslan staðfesti ekki fimmtíu milljarða hlutafjáraukningu. Það sjá það allir sérfræðingar sem lesa þetta yfir." Hann hafi því strax hafist handa við að láta vinda ofan af gjörningnum.

Enginn sérfræðingur á vakt

En hvernig stendur þá á því að Fyrirtækjaskrá samþykkti hlutafjáraukninguna til að byrja með, fyrst svona augljóst var að hún stæðist ekki lög? Skúli skýrði það með því að þegar tilkynningin barst hafi einfaldlega enginn sérfræðingur verið á vakt hjá skránni. Því hafi reyndur starfsmaður, sem ekki var sérfræðingur, farið yfir málið undir mikilli tímapressu.

Hann sagði að skýrslan frá Deloitte hafi verið „sett upp á þann hátt að hún virtist vera óvanalega vönduð sérfræðiskýrsla". Tilkynningin sjálf hafi haft „allt yfirbragð mjög vandaðrar tilkynningar og undir þeirri pressu sem starfsmaður var hafði hann tvo kosti: Það var annars vegar að samþykkja og hins vegar að fresta," sagði Skúli. Frestun hefði hins vegar verið stór og afdrifarík ákvörðun og því hafi starfsmaðurinn ákveðið að samþykkja málið. Það hafi augljóslega verið mistök.

„Starfsmaðurinn hafði greinilega ekki þá faglegu þekkingu til að átta sig á því að það var ekki samræmi á milli tilkynningarinnar og efnis skýrslunnar," sagði Skúli. Vegna þessa máls hefði vinnulagi stofnunarinnar verið breytt á þann hátt að nú læsu alltaf minnst tveir sérfræðingar yfir tilkynningar og skýrslur af þessu tagi.

Rengir orð Helga

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sem flytur málið sjálfur, spurði Skúla hvort opinber umfjöllun um eðli hækkunarinnar, þar sem skýrt kom fram að einungis einn milljarður hefði verið greiddur fyrir fimmtíu milljarða hækkun, hefði ekki átt að vekja grunsemdir hjá Fyrirtækjaskrá. Skúli svaraði því til að Fyrirtækjaskrá bærust 7.000 tilkynningar á ári og í orðum hans lá að ómögulegt væri að fylgjast grannt með umfjöllun um hvert mál.

„Það er hins vegar sérkennilegt að þeir sem lentu í því að hlutur þeirra þynntist út hafi ekki brugðist við," sagði Skúli.

Fyrir dómi í gær sagði Helgi Sigurðsson, fyrrverandi yfirlögfræðingur Nýja Kaupþings, raunar að hann hefði verið í sambandi við Fyrirtækjaskrá vegna málsins í kjölfar hlutafjárhækkunarinnar til að spyrjast fyrir um hvers vegna hún hefði verið samþykkt með þessu sniði.

Þessu hafnar Skúli. Hann hafi sérstaklega spurst fyrir um þetta innan stofnunarinnar í gær eftir að hafa lesið fréttir af yfirlýsingum Helga á Vísi og enginn hafi kannast við að hafa fengið spurningar um málið á þessum tíma. Hann viðurkenndi þó, eftir spurningu frá Gesti Jónsson, verjanda Lýðs, að einhver starfsmannavelta hefði orðið hjá stofnuninni síðan þá.

Ekki einhver Jói á gröfunni

Skúli áréttaði að ástæða þess að starfsmaðurinn hefði hleypt málinu í gegn væri að tilkynningin og skýrslan hefðu borist frá mjög áreiðanlegum aðilum.

„Þetta er ekki einhver Jói á gröfunni sem er að senda inn tilkynningu, heldur eru þetta stór endurskoðunarskrifstofa annars vegar og hins vegar stór lögfræðistofa sem eru að senda inn tilkynningu sem ber allt yfirbragð þess að vera mjög, og jafnvel óvanalega, traust," sagði Skúli. Þess vegna hafi starfsmaðurinn verið fullur trausts á að staðið væri heiðarlega að verki.

Þrír hafa gefið skýrslu fyrir dómnum í morgun. Starfsmaður Logos og tveir fyrrverandi stjórnarmenn í Existu. Vitnaleiðslum lýkur um hádegisbil í dag og málflutningur fer fram á morgun.

Athugasemd: Ólíkt því sem Skúli sagði fyrir dómi var það þáverandi blaðamaður Morgunblaðsins sem vakti athygli hans á tilkynningunni, ekki blaðamaður Viðskiptablaðsins.


Tengdar fréttir

Lýður kannast ekki við varnaðarorð Deloitte

Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Existu, kannast ekki við það að endurskoðandi félagsins hjá Deloitte hafi tjáð honum að 50 milljarða hlutafjáraukning Existu stæðist ekki lög og Deloitte gæti aldrei skrifað upp á hana. Hann sagðist fyrir dómi fyrr í morgun ekki muna til þess að það hafi komið fram í símtali hans og endurskoðandans Hilmars Alfreðssonar.

Deloitte kvartaði til Logos

Forsvarsmenn endurskoðunarfyrirtæksins Deloitte sendu kvörtunarbréf til lögmannsstofunnar Logos þegar þeim varð ljóst að skýrsla sem endurskoðendur fyrirtækisins höfðu unnið um hlutafjáraukningu Existu hefði verið notuð til að koma henni í gegn hjá Fyrirtækjaskrá. Frá þessu greindu bæði Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, og endurskoðandinn Hilmar Alfreðsson frá fyrir dómi nú eftir hádegi.

Eftirlitsaðilar sáu ekkert athugavert

Eftirlitsaðilar sáu ekkert athugavert við hlutafjáraukninguna í Existu fyrr en hálfu ári eftir að hún var um garð genginn. Þeim var þó fullkunnugt um að einungis hefði einn milljarður verið greiddur fyrir 50 milljarða hlutafjáraukningu.

Bjarnfreður var fullur efasemda

Bjarnfreður Ólafsson, lögfræðingur á Logos, segir að hann og aðrir starfsmenn Logos hafa verið fulla efasemda um að það mundi standast að greiða einungis einn milljarð fyrir 50 milljarða hlutafjáraukningu í Existu, eins og Lýður og Ágúst Guðmundssynir gerðu í desember 2008.

Töldu öll Deloitte hafa vottað viðskiptin

Fyrri degi aðalmeðferðar í Exista-máli sérstaks saksóknara er nú lokið. Vitnaleiðslum verður fram haldið í fyrramálið og að því loknu tekur málflutningur saksóknara og verjenda við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×