Skoðun

Stöðugleiki og aukin hagsæld

Ragna Árnadóttir skrifar
Við Íslendingar erum að mörgu leyti lánsöm. Við erum auðlindarík þjóð, með hagfellda aldurssamsetningu, sterka innviði, hátt tæknistig og kraftmikið vinnuafl. Við stöndum þó frammi fyrir efnahagslegum áskorunum. Kaupmáttur hefur dregist saman, skuldastöðu hins opinbera þarf að laga og talsvert hefur vantað upp á efnahagslegan stöðugleika.

Í byrjun árs fór af stað samstarfsverkefni stjórnmálaflokkanna, samtaka vinnumarkaðarins, fulltrúa atvinnulífsins, stjórnsýslunnar og fræðasamfélagsins undir nafninu Samráðsvettvangur um aukna hagsæld. Grunnmarkmið vettvangsins felst í að skapa heildstæða sýn til langs tíma á það hvernig Ísland getur fært sér framangreinda styrkleika í nyt og tekist á við fyrirliggjandi áskoranir með sem bestum hætti.

Eins og nafnið gefur til kynna leggjum við áherslu á sameiginleg markmið í starfi Samráðsvettvangsins. Þrátt fyrir ólík stjórnmálaviðhorf og forgangsröðun eru breiðir sameiginlegir fletir til staðar. Dæmi um slík markmið eru hærri meðaltekjur, efnahagslegur stöðugleiki, fjölbreytt atvinnutækifæri, sterkt menntakerfi, öflugt velferðarkerfi og sjálfbær nýting auðlinda.

Metnaðarfull markmið

Annar fundur Samráðsvettvangsins var haldinn í vikunni þar sem ræddar voru tillögur að efnahagslegum markmiðum til lengri tíma og tillögur að þjóðhagsramma sem gæti lagt grunn að aukinni hagsæld á Íslandi. Markmiðin voru eftirfarandi: Meðalhagvöxtur nemi 3,5% til ársins 2030, skuldahlutfall hins opinbera fari úr 133% niður í 60% af vergri landsframleiðslu á sama tímabili og stöðugleiki náist í verðlagi þannig að meðalverðbólga verði undir 2,5%. Þetta eru vissulega metnaðarfull markmið en reynsla annarra farsælla þróaðra ríkja gefur tilefni til að ætla að þau séu raunhæf.

Til að tryggja þann ramma sem skapar forsendur fyrir slíkum árangri er nauðsynlegt að ná samstöðu um stöðugleika. Fjármálastefna hins opinbera þarf að vera traust og fyrirsjáanleg, sátt þarf að ríkja um að launaþróun byggi á verðmætasköpun hagkerfisins og umgjörð peningamála verður að gera Seðlabankanum kleift að tryggja verðstöðugleika.

Þessar þrjár stoðir hagkerfisins, fjármál hins opinbera, vinnumarkaður og umgjörð peningamála, mynda órjúfanlega heild þegar kemur að því að tryggja stöðugleika og sterkar efnahagslegar forsendur fyrir vexti. Rauði þráðurinn í þeim tillögum sem ræddar voru á fundi Samráðsvettvangsins í liðinni viku voru ábyrgð og agi. Til lengri tíma litið eru þetta lykilþættir bætts hagvaxtar og bættra lífskjara.

Öll við sama borð

Langtímamarkmið um stöðugleika og efnahagslegar forsendur fyrir vexti krefjast þolinmæði og elju. Þeim verður náð með gagnkvæmu trausti, gagnsærri umræðu og sátt um forsendur milli stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og Seðlabankans. Keðja stöðugleikans er aðeins jafn sterk og veikasti hlekkur hennar og því er mikilvægt að breið samstaða náist um þessi málefni. Samráðsvettvangur um aukna hagsæld er kjörinn vettvangur fyrir þá sátt.

Þrátt fyrir ólíkar áherslur sitjum við öll við sama borð. Bætt lífskjör á Íslandi eru viðmið sem breið samstaða ætti að geta myndast um. Til að svo megi verða þurfum við að skapa sátt um ákveðinn grunn sem hægt er að byggja á. Agi og ábyrgð á öllum sviðum hagkerfisins og samræmd stefna þeirra aðila sem stýra efnahagsmálum er stærsta forsenda aukins hagvaxtar á Íslandi til lengri tíma.

Samráðsvettvangur um aukna hagsæld hefur ekki umboð til ákvarðanatöku í þessum efnum. Vonir standa þó til að þessi vettvangur nýtist til að stuðla að aukinni sátt og uppbyggilegri umræðu um þær grundvallarforsendur sem stuðla að bættum lífskjörum.

Til að nýta þau sóknarfæri sem Ísland hefur upp á að bjóða með sem bestum hætti þarf aga, ábyrgð og langtímasýn. Um það ríkir breið sátt innan Samráðsvettvangsins. Það gefur ástæðu til bjartsýni um að unnt sé að móta grunn fyrir sátt til langtíma í efnahagsmálum. Næsti fundur Samráðsvettvangsins er í maí. Þá verða frekari tillögur frá Verkefnastjórn ræddar. Gert er ráð fyrir að Samráðsvettvangur skili heildstæðu yfirliti að tillögum til að auka hagsæld á Íslandi í september næstkomandi.




Skoðun

Sjá meira


×