Innlent

Lögregluna vantar 3,5 milljarða á ári

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Setja verður fjórtán milljarða aukalega til löggæslumála til ársins 2017, eða 3,5 milljarða á ári, samkvæmt skýrslu innanríkisráðherra sem rædd var á þingi í gær. Þörfin er mikil og fjölga verður lögreglumönnum um 236 á sama tíma og verja rúmlega milljarði til að bæta búnað lögreglunnar.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti skýrsluna í gær, en hún fjallar um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar. Vinnan byggir á þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, og skýrslu sem ráðherra kynnti í fyrra um stöðu lögreglunnar.

Ögmundur sagði í umræðunum að fram hefði komið að niðurskurður til lögreglunnar á síðustu árum næmi 2,8 milljörðum að raungildi. Það hefði kallað á mannfækkun og hert hefði verið að löggæsluembættum á ýmsa lund. Hann fagnaði því að pólitísk samstaða væri að nást um að efla hag löggæslunnar.

„Ég fagna því að menn myndi um það samstöðu að á komandi árum verjum við umtalsverðum fjármunum til löggæslunnar, til að reisa hana við að nýju þannig að hún standi eigi verr að vígi en fyrir hrun, og gott betur.“

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að sambandið fullyrði að skýrslan marki eitthvert mesta framfaraspor sem stigið hafi verið í skipulagningu löggæslumála í ára- ef ekki áratugaraðir.

„Þetta er í fyrsta sinn sem nást saman við sama borð fulltrúar Alþingis, framkvæmdarvaldið, það er ráðuneytið, og embættismannakerfið, það er að segja lögreglan, til að fjalla um málefni lögreglunnar með þeim hætti sem birtist í skýrslunni.

Það eru í raun allir sammála um niðurstöðurnar, hverjar svo sem efndirnar verða síðan.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×