Innlent

"Það er sælla að gefa en þiggja!"

Jón Gnarr minnir á að ekki einu sinni Ísland sé eyland. Borgarstjórinn í Reykjavík segir að Íslendingar hafi skyldum að gegna við bræður sína og systur um allan heim.

Jón tjáir sig á Fésbókarsíðu sinni í dag vegna leiðara Ólafs Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins. Í leiðaranum gagnrýnir Ólafur Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, vegna ákvörðunnar hennar að greiða atkvæði gegn þróunaraðstoð Íslendinga.

„Ætli Vigdís Hauksdóttir hafi komið á spítala í Malaví, sem er eitt af þróunarsamvinnuríkjum Íslands? Þar háttar sums staðar þannig til að verðandi mæður sitja á jörðinni í steikjandi sólinni og hitanum á meðan þær bíða eftir mæðraskoðun. Spítalalóðin er full af ættingjum sjúklinga sem elda ofan í ástvini sína á hlóðum og sinna ýmsum öðrum þörfum þeirra af því að spítalinn hefur hvorki mannskap né peninga í það. Alnæmissjúklingar liggja á gólfinu af því að það eru ekki til nógu mörg sjúkrarúm. Kona af geðdeildinni hleypur allsnakin fram hjá, öskrandi formælingar," skrifar Ólafur.

Hann minnir á að þótt ástandið gæti verið betra á Landspítalanum sé það býsna fjarri þeiri neyð sem sé daglegt brauð á sjúkrastofnunum í þróunarheiminum.

Jón Gnarr tekur undir með ritstjóranum:

„Enginn er eyland, ekki einu sinni Ísland. Við erum einn heimur og við höfum skyldur við bræður okkar og systur um allan heim. Það er sælla að gefa en þiggja!"

Leiðara Ólafs má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×