Innlent

Segja svívirðilegt að leggja veginn á meðan málið er fyrir dómi

Heimir Már Pétursson skrifar
Hraunavinir telja það ekki tilviljun að framkvæmdir við nýjan veg í gegnum Gálgahraun séu byrjaðar þar sem skaðinn af framkvæmdunum verður hvað mestur. En í dag mótmæltu tugir manna lagningu vegarins í hrauninu.

Framkvæmdir við nýjan Álftanesveg eru hafnar úti í miðju hraunininu og telja Hraunavinir að nú þegar sé búið að vinna þar óafturkræft tjón. En þeir vildu að sýslumaður setti lögbann á framkvæmdirnar á meðan mál samtakanna gegn vegamálastjóra vegna málsins er fyrir dómi sem sýslumaður hafnaði.

Þótt Sýslumaðuirnn í Reykjavík hafi vísað frá lögbannskröfu Hraunavina og fleiri náttúruverndarsamtaka á framkvæmdanna gefast þeir ekki upp og í dag lögðu þeir græna fána í væntanlegt vegstæði í Gálgahrauni.



Reynir Ingibergsson
Reynir Ingibergsson formaður Hranavina sagði að sjón væri sögu ríkari fyrir fólk.. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk átti sig á þeim skemmdarverkum sem hér er verið að vinna á náttúruni. Og þetta er auðvitað alveg grátlegt því að á morgun er dagur íslenskrar náttúru. Það er nauðsynlegt að fólk átti sig á að þetta er bara byrjununin á þessum vegi sem búið er að berjast um árum saman,“ sagði Reynir

Höfnun sýslumanns á lögbanni hafi verið kærð til héraðsdóms og þar liggi líka málið gegn vegamálastjóra, en samtökin telja veglagninguna ólöglega.

„Og það er náttúrlega þvílík svívirðing að fara í þessar framkvæmdir á sama tíma og málin eru fyrir dómi,“ segir Reynir.

Ómar Ragnarsson var einn þeirra sem mótmæltu í Gálgahrauni í dag.

„Hér fara bara 5.500 bílar á dag. Það fara 14 þúsund bílar um Skeiðarvog. Það er auðvelt að leysa þetta án þess að fara í einhvers konar 2007 vélaherdeildardæmi,“ segir Ómar.

Tjónið á hrauninu vegna vegagerðarinar verði óafturkræft og það sé enn ömurlegra á degi íslenskrar náttúru sem er á morgun.

„Þetta er svona álíka ef einhver háskólinn tæki upp á því á degi íslenskrar tungu  að frá og með þeim degi yrði bara töluð enska við þann skóla, alltaf og ekkert annað,“ segir Ómar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×