Skoðun

Dögun og þjóðarvilji

Helga Þórðardóttir skrifar
Dögun er nýtt umbótasinnað stjórnmálaafl sem mun bjóða fram í næstu alþingiskosningum. Við byrjuðum á því að sameinast um kjarnastefnu en í henni koma fram þær megináherslur sem við ætlum að leggja af stað með í kosningabaráttuna. Þar ber fyrst að nefna öflugar aðgerðir í þágu heimila, með afnámi verðtryggingar á neytendalánum og almennri leiðréttingu húsnæðislána, í öðru lagi samþykkt nýrrar stjórnarskrár og í þriðja lagi er áherslan á auðlindirnar í þjóðareign og uppstokkun á stjórn fiskveiða.

Mjög margir innan Dögunar hafa verið öflugir innan grasrótarinnar. Við höfum barist fyrir því að fá Icesave-samninga í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú reynsla hefur kennt okkur að það getur verið afar mikilvægt að hlusta á fólkið í landinu. Almenningur getur vel kynnt sér flókin mál og tekið skynsamar ákvarðanir. Það sem skilaði okkur góðum árangri var samtakamáttur upplýstrar þjóðar sem neitaði að láta kúga sig.

Við í Dögun vildum líka að fólkið í landinu fengi að segja skoðun sína á nýrri stjórnarskrá. Fólkið í landinu fékk að segja skoðun sína í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn. Á þessu þingi fá stjórnvöld nýtt tækifæri til að hlusta á vilja þjóðarinnar og fara að vilja hennar varðandi nýja stjórnarskrá.

Dögun setti líka af stað undirskriftarsöfnun á thjodareign.is þar sem við hvöttum landsmenn til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórn fiskveiða. Við teljum að nýtt kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar sé hvorki í samræmi við auðlindaákvæðið í nýrri stjórnarskrá né við vilja þjóðarinnar og að það séu hræðileg mistök að hlusta ekki á þjóðarviljann.

Dögun er stjórnmálaafl sem vill koma með nýja nálgun inn í stjórnmálin. Við viljum ekki bara nýja umræðuhefð á Alþingi og á milli stjórnmálaflokka, heldur viljum við leggja ríka áherslu á að hlusta á fólkið í landinu. Það getum við gert með því að koma á þátttökulýðræði og efla beint lýðræði og þar er fyrsta skrefið að hlusta. Þess vegna er Dögun flokkur almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna.




Skoðun

Sjá meira


×