Innlent

Héraðsdómur segir Reykdal vera löglegt eiginnafn

Heimir Már Pétursson skrifar
Reykdal Máni Magnússon, 3 ára drengur á Selfossi, má heita Reykdal, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.

Fréttavefurinn Sunnlenska.is segir að mannanafnanefnd hafi talið að eiginnafnið Reykdal bryti í bága við íslenskt málkerfi, en viðurkenndi þó að margir hefðu borið nafnið í gegnum tíðina – til dæmis afi Reykdals Mána, Reykdal Magnússon á Selfossi.

Dómari kallaði meðal annars til tvo íslenskufræðinga sér til aðstoðar í málinu. Magnús Ninni Reykdalsson, faðir Reykdals, segir að það sé gríðarlega sterkt að dómarinn hafi fengið álit sérfræðinga áður en dómurinn var kveðinn upp.

Magnús Ninni segir fjölskylduna að sjálfsögðu mjög ánægða með þessa niðurstöðu eftir þriggja ára baráttu. Nú þurfi að sækja um aftur hjá mannanafnanefnd og vonandi að ríkið áfrýji ekki dómnum.

Þetta sé falleg jólagjöf til fjölskyldunnar og hann efist ekki um að hinn þriggja ára  Reykdal Máni sé hoppandi sæll og glaður eins og venjulega á leikskólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×