Innlent

Ísland í þriðja sæti í nýrri rannsókn

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ísland er í þriðja efsta sæti í nýrri samanburðarrannsókn á árangri af heilbrigðisstefnu í 43 Evrópuríkjum. Svíþjóð og Noregur verma efstu sætin, en lakasta útkomu hljóta Úkraína, Rússland og Armenía.

Í rannsókninni var borin saman stefna ríkjanna á tíu mismunandi sviðum, meðal annars varðandi tóbaks- og áfengisvarnir, meðgöngu og fæðingar, heilsufar barna, smitsjúkdóma, skimun fyrir krabbameinum, umferðaröryggi og loftmengun. Einnig voru rannsakaðir stjórnmálalegir, efnahagslegir og félagslegir áhrifaþættir heilbrigðisstefnu ríkjanna.

Til að meta frammistöðu ríkjanna voru þróaðir 27 mælikvarðar um árangur á þessum sviðum og voru þeir síðan skoðaðir með hliðsjón af sex bakgrunnsþáttum, þar á meðal vergum þjóðartekjum, skilvirkni stjórnsýslu og pólitísku landslagi í ríkjunum.

Í rannsókninni kom í ljós verulegur munur á milli Evrópuríkja. Þrátt fyrir að margs konar nýjar forvarnaraðgerðir hafi verið þróaðar í ríkjunum er innleiðingarþátturinn mjög mismunandi og álykta höfundarnir að hægt væri að bæta heilsu fólks verulega í Evrópu ef alls staðar væri beitt þeim aðferðum sem skilað hafa bestum árangri.

Fjallað er um rannsóknina í grein í European Journal of Public Health, tímariti evrópsku lýðheilsusamtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×