Innlent

Ellefu í fangaklefa - líkamsárás í miðborginni

Ellefu þurftu að gista fangageymslur í nótt vegna ýmisskonar mála og þá fóru sumir fram á það sjálfir við lögreglu að fá húsaskjól, að því er segir í tilkynningu lögreglu.

Töluvert var um ölvun í borginni og útköll vegna hávaða.

Ráðist var á mann í miðborginni um klukkan hálfþrjú. Tennur brotnuðu í manninum og er hann hugsanlega kinnbeinsbrotinn. Árásarmaðurinn var handtekinn og gisti fangageymslu í nótt.

Um klukkan hálffimm voru tveir menn handteknir grunaðir um innbrot og eignaspjöll á Hverfisgötu. Þeir voru báðir í mjög annarlegu ástandi að sögn lögreglu.

Skömmu síðar var innbrotsþjófur handtekinn við Apótek í Hafnarfirði. Sá var einnig vel við skál og allir fengu innbrotsþjófarnir að gista hjá lögreglu uns hægt verður að ræða betur við þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×