Innlent

Alvöru þungarokk í Eldborg í kvöld

Búið er að fjarlægja fyrstu þrjár sætaraðirnar í Eldborgarsalnum fyrir keppnina í kvöld.
Búið er að fjarlægja fyrstu þrjár sætaraðirnar í Eldborgarsalnum fyrir keppnina í kvöld. Mynd/Facebook-síða Skálmaldar
„Það var alltaf planið að sýna þessa tónlist við bestu mögulegu aðstæður," segir Þorsteinn Kolbeinsson, skipuleggjandi hljómsveitarkeppninngar Wacken Metal Battle, sem haldin verður í Eldborgarsalnum í Hörpu í kvöld.

Þetta er í fyrsta skiptið sem svo margar þungarokkshljómsveitir koma saman í Eldborgarsalnum, sem hefur hingað til verið notaður undir óperur og aðra heldur ljúfari tóna.

Sex íslenskar sveitir munu keppa, og sigurvegarinn spilar á Wacken Open Air, stærstu þungarokkshátíð veraldar. Þar koma mörg þúsund manns saman.

„Það er dómnefnd sem velur sigurvegarann í kvöld ásamt áhorfendum. Það eru sjö erlendir dómarar komnir hingað til lands," segir Þorsteinn.

Í dómnefnd eru blaðamenn og fulltrúar útgáfufyrirtækja.

Svo er það rúsínan í pysluendanum, því íslenska hljómsveitin Skálmöld ætlar að loka kvöldinu klukkutíma tónleikum. „Þeir voru í „sound check-i" í morgun og ég get lofað því að þetta verður alvöru rokk og ról," segir Þorsteinn.

Húsið opnar klukkan 17:30 en keppnin sjálf hefst á slaginu 18:30.

Hægt er að kaupa miða inni á midi.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×