Innlent

ESA rannsakar meinta ríkisaðstoð við gagnaver

JHH skrifar
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra kynnti nýtt frumvarp í ríkisstjórn í gær.
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra kynnti nýtt frumvarp í ríkisstjórn í gær. Mynd/ Valli.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að hefja formlega rannsókn á ríkisaðstoð í tengslum við breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem varða viðskiptavini gagnavera á Íslandi. Lagabreytingarnar voru tilkynntar til ESA þann 2. september 2011. Þær höfðu þá þegar öðlast gildi. Eftirfarandi breytingar voru gerðar á lögunum:

Virðisaukaskattur er ekki lagður á rafrænt afhenta þjónustu gagnavera til kaupenda sem búsettir eru erlendis og hafa ekki fasta starfsstöð á Íslandi;

Virðisaukaskattur er ekki lagður á blandaða þjónustu gagnavera til kaupenda sem búsettir eru erlendis og hafa ekki fasta starfsstöð á Íslandi;

Innflutningur á netþjónum og tengdum búnaði er undanþeginn virðisaukaskatti þegar eigendur þeirra eru heimilisfastir í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og ekki með fasta starfsstöð á Íslandi.

Samkvæmt íslenskum stjórnvöldum var tilgangurinn með lagabreytingunni tvíþættur. Í fyrsta lagi sá að bæta samkeppnisstöðu íslenskra gagnavera og tryggja að viðskiptaumhverfið hér á landi, hvað varðar virðisaukaskatt, væri sambærilegt því sem gengur og gerist í aðildaríkjum Evrópusambandsins. Í öðru lagi var ætlunin sú að ýta undir nýtingu íslenskra nátturauðlinda til handa gagnaveraiðnaðinum.

ESA komst að þeirri niðurstöðu að sá hluti lagabreytingarinnar sem snýr að rafrænt afhentri þjónustu gagnavera til kaupanda sem búsettir eru erlendis, fæli ekki í sér ríkisaðstoð enda samrýmdist breytingin þeirri meginreglu að virðisaukaskattur sé ekki lagður á vörur og þjónustu sem seld er úr landi.

Stofnunin komst hins vegar að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að hinar lagabreytingarnar tvær fælu hugsanlega í sér ríkisaðstoð. Stofnunin lýsti yfir efasemdum um að slík aðstoð samrýmdist EES samningnum.

Í frétt á vef ESA kemur í ljós að leiði skoðun í ljós að ríkisaðstoð hafi verið veitt í bága við ákvæði EES samningsins verður óskað eftir því að íslensk stjórnvöld krefji viðtakendur um endugreiðslu hennar.

Því er við þetta að bæta að Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar i gær frumvarp þar sem breytingar eru gerðar á innheimtu virðisaukaskatts frá erlendum gagnverum sem starfa á Íslandi. Með frumvarpinu er reynt að bregðast við athugasemdum sem gerðar voru við lagabreytingarnar árið 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×