Innlent

Engar skýringar á gati hjá bílaverkstæðum

Freyr Bjarnason skrifar
Özur Lárusson hefur enga haldbæra skýringu á minni verkefnastöðu á bílaverkstæðum.
Özur Lárusson hefur enga haldbæra skýringu á minni verkefnastöðu á bílaverkstæðum. Fréttablaðið/GVA
Verkefnastaða á bílaverkstæðum dróst óvænt saman á haustmánuðum þrátt fyrir að bílasala hafi einnig dregist saman.

Að sögn Özurar Lárussonar, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins, hafði verkefnastaða á verkstæðum frá bankahruninu verið ágæt, sem sé ekki skrítið miðað við að bílaflotinn er að eldast.

„Þar til á haustmánuðum þá gerðist það undarlega að þrátt fyrir að bílasala hafi dregist saman dróst líka saman á verkstæðum. Ég hef enga haldbæra skýringu á því. Hvort fólk er bara að bíða eftir einhverju óáþreifanlegu, til dæmis þessum niðurfellingapakka ríkisins. Og taka þá ákvörðun hvort það eigi að fara út í að kaupa nýjan bíl eða halda gamla bílnum gangandi eitthvað lengur,“ segir Özur aðspurður.

Özur bætir við að verkefnastaðan sé byrjuð að taka við sér aftur. „En það kom óskýranlegt gat frá ágúst til dagsins í dag. Það hefur alltaf verið biðlisti á verkstæðum og ágætis verkefnastaða. Svo datt botninn úr því á haustmánuðum hjá mjög mörgum.“

Özur segir bílaflotann á Íslandi vera gamlan og endurnýjunina litla. Meðalaldur fólksbíla sé tólf ár en annars staðar í Evrópu er hann í kringum átta ár.

„Við reiknum með því að bílasala taki við sér á nýju ári, það er eiginlega ekkert annað í boði. Það er ekki endalaust hægt að halda gömlum bílum gangandi, það borgar sig ekki,“ segir Özur Lárusson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×