Innlent

Taktfasta jólahúsið í Sandgerði er engu líkt

Fjölskylda nokkur í Sandgerði hefur tekið jólaskreytingarnar á næsta stig.

Hús þeirra er fagurlega skreytt að innan sem utan en það dugði þeim ekki til að fanga jólaandann sem bjó í brjóstum þeirra.

Þau brugðu því á það ráð að tölvuforrita skreytingarnar svo þær blikka í takt við nokkur vel valin jólalög. 

Sandgerðisbær er á efa með skreyttustu bæjum á landinu. Gríðarlegur metnaður er lagður í skrautið sem lýsir svo sannarlega upp skammdegið.

Fjölskyldan við Hlíðarveg hefur þó sannarlega tekið skreytingarnar upp um nokkur desíbil, bókstaflega. 

Í fyrra brugðu foreldrarnir sér af bæ í eina nótt og þegar þau snéru aftur brá þeim heldur en ekki í brún. Börnin þeirra þrjú höfðu stillt jólaljósin í takt við dynjandi jólatónlist sem ómaði um bæinn.

Það er elsti sonur þeirra hjóna sem stuttist við tölvuhugvit sitt. Hugmyndina fékk hann af netinu og lærði og útfærði sjálfur.

Fjölskyldan hjálpast að við skreytingarnar og segja það órjúfanlegan part af jólahaldinu. Það er alls ekki tilkomuminna umhorfs inni og við fengum húsmóðurina til að sýna okkur sitt eftirlætisskraut. 

Í meðfylgjandi myndskeiði úr fréttum Stöðvar 2 má sjá skreytingarnar fínu og viðtöl við fjölskyldumeðlimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×