Lífið

Volg mjólk einu veigarnar í útgáfuveislu

Ugla Egilsdóttir skrifar
Bragi Páll Sigurðarson situr fyrir á eigin bókarkápu.
Bragi Páll Sigurðarson situr fyrir á eigin bókarkápu.
Bragi Páll Sigurðarson ljóðskáld efnir til útgáfuveislu fyrir bók sína Hold í Bókabúð Máls og menningar í dag.

Hann segist ekkert sérstaklega hrifinn af veislum, og tímir ekki að kaupa vín handa gestum, eins og venjan er að bjóða upp á við slík tilefni.

Þess í stað ætlar hann að bjóða upp á mjólk. „Ég ætla að hafa hana volga. Þá verður ekki drukkið mikið af henni og ég get haldið eftir afgöngum af mjólkinni til að drekka yfir hátíðirnar með öllum kökunum. Ég vildi líka ekki vera að ýta undir eitthvert fyllerí á jólunum.“

Bragi Páll segir þó ekki neinn templaraanda einkenna ljóðabók hans Hold. „Ég myndi frekar segja að í henni væri nískuandi og meinlætafílingur.“

Bragi Páll segist eiga hæfileikaríkan vin sem ætlar að troða upp í veislunni. „Gunnar Jónsson ætlar að spila á gítar og syngja lag við texta upp úr bókinni. Þetta ætlar hann að gera alveg ókeypis.

Það kemur sér vel. Þessi bókaútgáfa er búin að setja mig alveg á hausinn. Ég vonast til að selja nokkrar bækur í útgáfuboðinu, svo ég komi út á sléttu.“

Útgáfuveislan fer fram í Bókabúð Máls og menningar klukkan 17 í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.