Innlent

Þeytti bílflautu og var rotaður

Valur Grettisson skrifar
Tuttugu og fjögurra ára gamall karlmaður var dæmdur í eins og hálfs árs óskilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Maðurinn var sakfelldur fyrir að ráðast á annan mann í umferðinni nærri Olís í Norðlingaholti með þeim afleiðingum að sá féll í götuna og missti meðvitund.

Mennirnir voru að aka frá bifreiðastæði við Olís með fyrirhugaða akstursstefnu austur Norðlingabraut þegar brotaþoli flautaði „létt“ á hann eins og hann lýsti fyrir dómi. Úr varð að sá dæmdi fór út úr bílnum, þar sem fyrir voru kærasta hans og lítið barn, gekk að bifreið mannsins og fór að ýta eða pota í hann í gegnum rúðuna.

Fórnarlambið fór þá út úr bílnum og rifust þeir nokkuð áður en árásarmaðurinn sló síma úr höndum hans og gekk í burtu. Elti brotaþolinn hann þá að bílnum og sló þar í spegil bifreiðarinnar. Vitni lýsa því að þá hafi einhver átök átt sér stað, sem enduðu með því að brotaþolinn féll í götuna og rotaðist. Við það flýði hinn dæmdi og hringdi sjálfur á lögreglu skammt frá.

Í niðurstöðu dómsins segir svo: „Má telja mildi að ekki hafi verr farið, en brotaþoli féll á hnakka í malbikið og rotaðist. Í stað þess að huga að brotaþola og tryggja öndun hjá honum fór ákærði þegar á brott og yfirgaf brotaþola. Var framferði ákærða þennan dag í alla staði ámælisvert.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×