Innlent

Niðurskurður bitnar á samkeppnishæfni HÍ

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands.
Háskóli Íslands er í sæti 251 til 275 af 17 þúsund háskólum sem starfandi eru í heiminum. Þetta er þriðja árið í röð sem Háskóli Íslands er á listanum yfir bestu háskóla heims.

Listinn yfir bestu háskóla heims byggist á ítarlegu mati á gæðum háskóla og er rannsóknarstarf mikilvægur liður í matinu.

Í nýjum fjárlögum er gert ráð fyrir að  framlag íslenska ríkisins til Háskóla Íslands á næsta ári lækki um 321,8 milljónir króna sem Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segir bitna á samkeppnishæfni skólans.

„Við erum áhyggjufull út af niðurskurði til rekstrar skólans núna sjötta árið í röð. Þetta skerðir möguleika okkar besta fólks í vísindum að sækja fram og stunda sín störf eins og þörf er á,“ segir Kristín Ingólfsdóttir.

Niðurskurður er á rekstrartekjum skólans, bæði til kennslu og rannsókna en niðurskurður til samkeppnissjóða RANNÍS hefur einnig áhrif á störf Háskóla Íslands.

„Okkar vísindamenn sækja í vísindasjóðina og því kemur þetta mjög illa niður á okkar vísindafólki. Þar af leiðandi hefur það einnig vond áhrif á samkeppnishæfni skólans,“ segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×