Innlent

„Óhentugt að reka bráðamóttöku á tveimur stöðum“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, segir vanta fé til tækjakaupa og endurskipulagningu.
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, segir vanta fé til tækjakaupa og endurskipulagningu.
Bilað sneiðmyndatæki á Landspítalanum í Fossvogi olli vandamálum fyrir sjúklinga Landspítalans sem voru fluttir með sjúkrabíl á Hringbraut til að fara í myndatöku.

Ólafur Baldursson, framkvæmdstjóri lækninga á Landspítalanum, segir tvennt þurfa að koma til svo að hægt sé að bæta ástandið á bráðamóttökunni.

„Okkur vantar fé til tækjakaupa og við þurfum að endurskipuleggja starfsemina vegna þess að það er afar lítið fé sem ætlað er í endurnýjun húsnæðis Landspítala eins og kunnugt er úr fjárlögunum.“

Ólafur segir Landspítala eiga tvö sneiðmyndatæki, annað er í Fossvogi og hitt á Hringbraut. Tækið í Fossvogi aðeins nokkurra ára gamalt en það hefur bilað tvisvar á undanförnum mánuði á þann hátt að það hefur truflað meðferð sjúklinga.

„Bilun af þessu tagi getur valdið töf á greiningum. Aðalatriðið í þessu máli er að það er afar óhentugt að reka bráðamóttöku á tveimur stöðum eins og við þurfum að gera, bæði í Fossvogi og á Hringbraut. Þeir einstaklingar sem verða fyrir alvarlegum slysum koma í Fossvog og við þurfum sem allra fyrst í slíkum tilfellum að taka tölvusneiðmynd til að meta áverkana,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×