Innlent

Júlíus Vífill stefnir ótrauður á fyrsta sætið í Reykjavík

Heimir Már Pétursson skrifar
"Þetta var fínn fundur í gær og mikil eining meðal flokksmanna og nú er bara að fara að undirbúa sig undir þetta.“
"Þetta var fínn fundur í gær og mikil eining meðal flokksmanna og nú er bara að fara að undirbúa sig undir þetta.“
Júlíus Vífill Ingvarsson stefnir ótrauður á fyrsta sæti Sjálfstæðismanna í Reykjavík eftir að fulltráð flokksins ákvað í gær að haldið yrði opið prófkjör meðal flokksmanna fyrir kosningarnar næsta vor. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir liggur undir felld og íhugar eftir hvaða sæti hún mun sækjast eftir.

Á fundi Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins,  í gærkvöldi var ákveðið að haldið verði opið prófkjör meðal flokksbundinna Sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor, eftir að stjórn Varðar samþykkti óvænt á aukafundi seinnipartinn í gær að falla frá því að einnig yrði borinn upp tillaga um leiðtogakjör á fundinum. Júlíus Vífill Ingvarsson núverandi oddviti flokksins í Reykjavík er sáttur við þessa niðurstöðu.

„Þetta var fínn fundur í gær og mikil eining meðal flokksmanna og nú er bara að fara að undirbúa sig undir þetta,“ segir Júlíus Vífill. En hann sækist eftir því að leiða flokkinn áfram. „Já, ég hef þegar sagt það. Það er sama hvaða leið hefði verið farin. Ég mun gefa kost á mér í leiðtogasætið hér í Reykjavík,“ segir hann.

Júlíus Vífill telur að aðalskipulag Reykjavíkur sé ofarlega í huga margra Reykvíkinga, en frestur til að skila inn athugasemdum við það rennur út í dag.

„Það sem komið hefur fram að undanförnu er svo augljóst. Mjög mikill meirihluti borgarbúa telur að flugvöllurinn í Reykjavík eigi ekki að fara á þessu aðalskipulags tímabili og ég hef alltaf tekið undir það,“ segir Júlíus Vífill.

Aðrir sem nefndir hafa verið sem líklegir frambjóðendur í fyrsta sætið eru Gísli Marteinn Baldursson sem er allt annarar skoðunar varðandi flugvöllinn, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi.

„Ég er enn þá að íhuga málið og tala við mitt fólk. Þetta er stór ákvörðun sem þarf aðeins að liggja yfir. Þetta bindur mann næstu fjögur árin þannig að ég ætla að taka mér aðeins meiri tíma,“ segir Þorbjörg Helga þegar hún er spurð hvort hún stefni á fyrsta sætið.

Hún segir ýmislegt í ytra umhverfinu geta haft áhrif á kosningabaráttuna næsta vor, eins og kjara- og efnahagsmál.

„Svo er það alltaf grunnþjónustan sem skiptir öllu máli í huga Reykvíkinga. Það eru skólarnir og velferðarmálin og svo hvað þú ert að borga í gjöld og skatta,“ segir Þorbjörg Helga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×