Innlent

Mikilvægt að fræða unga netnotendur um þýðingu höfundaréttar

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Illugi leggur áherslu á að mikilvægt sé að fræða unga kynslóð netnotenda um efnahagslega og menningarlega þýðingu höfundaréttar.
Illugi leggur áherslu á að mikilvægt sé að fræða unga kynslóð netnotenda um efnahagslega og menningarlega þýðingu höfundaréttar. mynd/365
Ráðstefnan NAPO-Nordic Anti Piracy Operation hófst í gær á Hilton Nordica. Efni ráðstefnunnar er hvernig hægt sé að stemma stigu við hugverkabrotum á netinu. Þátttakendur eru rétthafar og löggæsluyfirvöld frá Norðurlöndum. Ráðstefnunni lýkur í dag.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna og lagði hann meðal annars áherslu á að notendum standi löglegir kostir til boða til að njóta tónlistar, kvikmynda og sjónvarpsefnis um netið. Þannig að auðveldara verði að nálgast efnið með löglegum hætti en ólöglegum.

Hann lagði jafnframt áherslu á að mikilvægt sé að fræða unga kynslóð netnotenda um efnahagslega og menningarlega þýðingu höfundaréttar.

Loks lagði hann áherslu á að réttarúrræði í þágu rétthafa séu skjót, skilvirk og hafi fyrirbyggjandi áhrif. Hann sagði að vegna umræðu um lokun aðgangs að vefsvæðum sem eru uppspretta ólöglegs efnis, að slíkar ákvarðanir ættu að vera í höndum dómstóla en ekki stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×