Innlent

Jarðskjálftahætta vegna virkjunar nálægt náttúruperlu vanreifuð

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að 15 mánuðir gætu liðið frá uppfærðu umhverfismati þangað til framkvæmdir hefjast að því gefnu að það verði virkjuninni hagfellt.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að 15 mánuðir gætu liðið frá uppfærðu umhverfismati þangað til framkvæmdir hefjast að því gefnu að það verði virkjuninni hagfellt. Mynd/ÞÞ
Áhrif jarðskjálftavár í gildandi umhverfismati Bjarnarflagsvirkjunar er vanreifuð í gildandi umhverfismati fyrir virkjunina að mati verkfræðistofunnar Eflu. Landsvirkjun styður endurskoðað umhverfismat um þennan þátt en það gæti tekið 15 mánuði með öllu.

Landsvirkjun kynnti í dag úttekt verkfræðistofunnar Eflu á núgildandi mati á umhverfisáhrifum fyrir Bjarnarflagsvirkjun, en virkjunin er í nýtingarflokki rammáaætlunar Alþingis.

Í Bjarnarflagi er ein elsta nýtingarsaga háhitasvæðis á Íslandi, en virkjunin er ekki óumdeild vegna nálægðar hennar við náttúruperluna Mývatn.

Ekki þarf að endurskoða umhverfismatið í heild sinni

Helstu niðurstöðu Eflu, sem kynntar voru í dag, eru að áhrif lítilla jarðskjálfta vegna djúplosunar affallsvatns í Bjarnarflagi eru vanreifuð í gildandi umhverfismati virkjunarinnar frá 2003.

Ekki er ástæða til að endurtaka umhverfismatið í heild sinni en meta þarf sérstaklega umhverfisáhrif lítilla jarðskjálfta í sjálfstæðu mati, en ákvörðun um endurskoðað umhverfismat er í höndum Skipulagsstofnunar.

„Þeirra niðurstaða er að jarðskjálftahættan er vanreifuð og við teljum að það þurfi þá að fara í gegnum umhverfismat aftur,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Hörður segir að 15 mánuðir gætu liðið frá ákvörðun um umhverfismat og framkvæmdir hefjast ef matið verður virkjunininni hagfellt. Landsvirkjun stefnir að varfærinni uppbyggingu í Bjarnarflagi með 45 MW virkjun.

Mývatn að vetri til. Margir telja Mývatn eina fegurstu náttúruperlu landsins en nálægð Bjarnarflagsvirkjunar veldur þessu sama fólki áhyggjum.
Áhyggjur af nálægð við Mývatn

Menn hafa áhyggjur af nálægð Bjarnarflagsvirkjunar við Mývatn. Er öruggt að lífríki Mývatns verði ekki stefnt í hættu með þessari virkjun? „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja það. Bæði með því að rannsaka svæðið áður en framkvæmdir fara af stað en einnig með öflugri vöktun þannig að það yrði alltaf gripið inn í ef sú staða kæmi upp. Þetta svæði hefur farið í gegnum langt rannsóknarferli og núna síðast í gegnum rammaáætlunarferli sem lauk í lok síðasta árs og þar var niðurstaða sérfræðinga að þetta svæði hentaði til virkjunar.“

Eru ekki aðrir virkjunarkostir sem Landsvirkjun gæti lagt áherslu á sem eru þegar í nýtingarflokki því Mývatn þykir mikil náttúruperla og það er enginn einhugur um þennan virkjunarkost? „Við skoðum alltaf þá kosti sem við höfum möguleika á. Við leggjum þá kosti í rammaáætlunarferlið. Þar er tekin afstaða til þeirra kosta sem er heimilt að nýta. Það er ekki ákvörðun Landsvirkjunar heldur stjórnvalda. Við reynum eftir fremsta megni að vanda okkur á þeim svæðum sem á að nýta,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×