Innlent

Hundurinn bjargar húsbændum sínum

Gunnar Valþórsson skrifar
Þegar slökkvilið kom á staðinn logaði töluverður eldur inni á baðherherbergi íbúðarinnar.
Þegar slökkvilið kom á staðinn logaði töluverður eldur inni á baðherherbergi íbúðarinnar.
Eldur kviknaði í íbúð í fjölbýlishúsi í Kríuási í Hafnarfirði rétt eftir klukkan tvö í nótt.

Þegar slökkvilið kom á staðinn logaði töluverður eldur inni á baðherherbergi íbúðarinnar. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en íbúðin er mikið skemmd, af völdum loganna inni á baðinu og af mikils reyks sem barst um alla íbúðina.

Aðrar íbúðir í blokkinni sluppu við reykskemmdir. Það vakti athygli slökkviliðsmannanna að enginn reykskynjari var í íbúðinni. Það varð íbúunum hinsvegar til happs að það er hundur á heimilinu og hann vakti húsbændur sína þegar hann varð eldsins var, þannig að heimilisfólkið náði að forða sér. Lögregla rannsakar nú eldsupptök.

Þá var slökkviliðið einnig kallað út að Ólafsgeisla í Grafarholti þar sem eldur kviknaði í rafmagnsinnstungu í gærkvöldi. Rífa þurfti vegginn að hlut til þess að tryggja að eldurinn hefði ekki náð að breiða úr sér en annars var tjón minniháttar. Þriðja útkallið var síðan rétt fyrir klukkan eitt í nótt þegar tilkynnt var um reyk í Fornubúð í Hafnarfirði. Þegar slökkvilið kom á staðinn reyndist hinsvegar um misskilning að ræða. Aðeins var um reyk frá leir-ofni að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×