Innlent

Strætó á Norðurlandi bjargað fyrir horn

Heimir Már Pétursson skrifar
Mikil ánægja hefur verið með þjónustu Strætó á Norður- og Norðausturlandi.
Mikil ánægja hefur verið með þjónustu Strætó á Norður- og Norðausturlandi.
Þjónusta Strætó á Norður- og Norðausturlandi hefur verið tryggð en útlit var fyrir að hún myndi leggjast af í vikunni. Eyþing horfði fram á greiðsluþrot en hefur nú tekist að greiða verktaka fyrir þjónustuna.

Útlit var fyrir að starfsemi Strætó sem ekur milli Akureyrar, Siglufjarðar, Húsavíkur og allt austur á firði og milli Akureyrar og Reykjavíkur myndi leggjast af í þessari viku. En Eyþing sem sér um reksturinn átti ekki fjórar milljónir króna sem greiða átti verktaka sem sér um aksturinn síðast liðinn miðvikudag. Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður Eyþings segir að flulltrúar þess hafi átt fundi með þingmönnum kjördæmisins og síðan Hönnu Birni Kristjánsdóttur innanríkisráðherra vegna málsins.

„Við funduðum með ráðherra í fyrradag og vegamálastjóra í gær og það er komin lausn á þann vanda sem við vorum í. Það var í raun ákveðin reiknivilla í því líkaninu sem við notuðumst við til að finna út fjármagn á svæðið og það er búið að leiðrétta það núna sem leysir okkur úr þeirri snöru sem við vorum í,“ segir Geir Kristinn. Hann hafi því trú á að komin sé langtímalausn á málinu.

Þá hafi verið ákveðið að fara í endurskoðun á fyrirkomulaginu í ljósi reynslunnar á þessu fyrsta ári og sníða agnúa af kerfinu. Búið sé að gera upp við verktakann og menn horfi bjartsýnir fram á veginn. Hann hafi trú á að komin sé framtíðarlausn á málið.

„Já, ég er sannfærður um það. Nú erum við farin að horfa til næstu fjögurra til fimm ára og það er mikil ánægja með verkefnið meðal almennings og meðal flestallra sveitarstjórnarmanna. Þannig að nú horfum við bara fram veginn og gerum okkar áætlanir til næstu fjögurra til fimm ára,“ segir Geir Kristinn.

Mikil ánægja hafi verið með starfsemi Strætó á svæðinu.

„Já aukningin hefur verið stöðug og mikil ánægja með þessa þjónustu og nú er næsta skref að þróa verkefnið, bæta við leggjum og halda áfram að efla þjónustustigið,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×