Innlent

Auka stærðfræðikunnáttu í gegnum leik

Hrund Þórsdóttir skrifar
Helen Símonardóttir, grunnskólakennari og sonur hennar, Kjartan Sveinsson, notast við leiki og spil til að ýta undir talnaskilning og jákvæðni gagnvart stærðfræði.
Helen Símonardóttir, grunnskólakennari og sonur hennar, Kjartan Sveinsson, notast við leiki og spil til að ýta undir talnaskilning og jákvæðni gagnvart stærðfræði.
Helen Símonardóttir, kennari við Laugarnesskóla, fékk styrk fyrir verkefnið Foreldrar bregða á leik í stærðfræði, frá Verkefna- og námsstyrkjasjóði Kennarasambands Íslands síðasta vetur. Verkefnið hlaut hvatningarverðlaun skóla- og frístundasviðs í vor. „Í þessu verkefni set ég fram nokkur spil sem foreldrar geta spilað við börnin sín og notuð eru tæki og tól sem oft eru til á heimilum, spilastokkar og teningar, og einföld spil til að styðja og styrkja stærðfræðikunnáttu barnanna,“ segir Helen.

Hún hefur sinnt sérkennslu í stærðfræði og upphaflega var verkefnið aðeins ætlað börnum með slíkar þarfir en áhuginn reyndist mikill. „Þetta getur nýst öllum börnum á yngri stigum grunnskólans og eldri börnum sem eiga við mikla stærðfræðierfiðleika að stríða.“

Í verkefninu spiluðu foreldrar spil vikunnar með barni sínu í minnst 15 mínútur á dag, fimm daga vikunnar, en þótt því sé formlega lokið eru myndböndin, þar sem leikirnir eru útskýrðir, aðgengileg öllum á heimasíðu Lauganesskóla.

Sonur Helenar tók þátt í verkefninu og lék í myndböndunum með móður sinni. Í meðfylgjandi frétt sýna þau hvernig einn leikjannna gengur fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×