Innlent

Veðurstofan varar við vonskuveðri

Veðurstofa Íslands varar við illviðri á sunnudag og mánudag. Á morgun er búist við stormi eða roki, 20-28 m/s, hvassast þegar líður á morgundaginn og fram á mánudag. Snarpar vindhviður munu fylgja víða um land, þó einkum suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum, yfir 40 m/s. Einnig er búist við talsveðri eða mikilli úrkomu austast á landinu annað kvöld og aðra nótt.

Einar Magnús Einarsson, veðurfræðingur veðurstofunnar, segir að ekkert ferðaveður verði á fjallvegum Norðanlands. „Það þýðir allavega ekki að vera þarna á sumardekkjum. Svona veðurspá væri kannski ekki beint fréttnæm á miðjum vetri en það gildir annað þegar það er miður september."



Spá veðurstofunnar er eftirfarandi:



Norðan og norðvestan 18-25 m/s eftir hádegi á morgun, en 20-28 síðdegis, hvassast á Suðausturlandi og á Hálendinu og víða mjög snarpar vindhviður, einkum suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum yfir 40 m/s. Talsverð rigning austanlands, rigning eða slydda norðanlands, en slydda eða snjókoma til fjalla. Úrkomulítið sunnan- og vestanlands. Annað kvöld og aðra nótt má búast við talsverðri eða mikilli úrkomu austast á landinu. Búast má við sjókomu ofan 300-400 m austast á landinu, en 200-300 m norðvestantil. Annað kvöld má búast við að kólni heldur og að snælínan færist 100 til 200 metra neðar. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu þegar líður á mánudag, fyrst vestantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×