Innlent

Von á meiri flóðum

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Allavega fimm manns eru látnir og um fimm hundruð er saknað vegna flóða sem gengið hafa yfir Colorado undanfarna daga. Íslenskur nemi í fylkinu segir von á meiri flóðum.

Mikið hefur rignt yfir íbúa Colorado undanfarna daga en miðvikudagur og fimmtudagur í síðustu viku eru tveir mestu rigningadagar frá því mælingar hófust í fylkinu. Yfir þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna flóða sem myndast hafa eftir úrhellið, sex eru taldir af og tæplega fimm hundruð manns er saknað.

Hákon Skjenstad, sem býr í Boulder þar sem miklar skemmdir hafa orðið, segir að mörg hús uppi við fjöllin hafi hreinlega hrunið til grunna og að mikil leit standi þar yfir af fólki sem bjó í þeim húsum. Hann segir að ennþá sé svakaleg rigning og að von sé á meiri flóðum.

Hákon segir að allir hans vinir séu öruggir. „Ég hef tékkað á öllum sem að ég þekki. Það hefur flætt inn hjá mjög mörgum, í kjöllurum og einnig á jarðhæðum ef að fólk býr þar sem árnar eru og húsin liggja lágt. Ég þekki samt engan persónulega sem hefur lent í mjög slæmum aðstæðum,“ segir hann.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir neyðarástandi í fylkinu og lofað fjármagni til aðstoðar íbúum þess. Hákon segir segir að merki um það hversu mikil flóðin sé til dæmis að háskólasvæði Colorado háskólans er búið að vera lokað síðan á fimmtudag. „Það er aldrei öllu lokað og fólki sagt að halda sig heima,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×