Innlent

Sjálfstæðismenn ósáttir við leiðtogakjör

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Áslaug Friðriksdóttir segir mikla óánægju vera meðal Sjálfstæðismanna sem hún hefur rætt við vegna hugsanlegs leiðtogakjörs.
Áslaug Friðriksdóttir segir mikla óánægju vera meðal Sjálfstæðismanna sem hún hefur rætt við vegna hugsanlegs leiðtogakjörs. mynd/365
Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík hefur boðað til félagsfundar á fimmtudaginn næstkomandi. Á fundinum á að leggja fram tillögu stjórnar Varðar um fyrirkomulag vegna vals fyrir sveitarstjórnarkosningar 2014.

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að  allt bendi til þess að á fundinum verði borin upp sú tillaga að fyrir næstu borgarstjórnarkosningar fari fram leiðtogaprófkjör.

Hún segir að það hafi jafnframt heyrst að tillagan verði sú að það eigi að leyfa mjög litlum hluta sjálfstæðismanna að taka þátt í kjörinu. Aðeins þeim sem eru í fulltrúaráðinu muni gefast þess kostur,  í ráðinu séu eitthvað um þúsund manns. Það séu mikið færri  en hingað til hafi tekið þátt i prófkjöri flokksins.

„Þúsundir manna eru á kjörskrá í Reykjavík og allt upp í tíu þúsund manns hafa verið að taka þátt í  prófakjöri undanfarin ár. Það er skrítið ef tillagan verður sú að það eigi aðeins að leyfa mjög litlum hluta að kjósa,“ segir Áslaug.

Undarlega að málum staðið

Áslaug segir mjög undarlega að málum staðið. Það hafi alls ekki verið skýrt hvernig eigi að standa að þessu máli og það hafi ekkert komið fram um það hvernig ætti að kjósa í önnur sæti en leiðtogasætið. En það mun vera ljóst að fullt af fólki mun bjóða sig fram í leiðtogasætið en líka í önnur sæti. Mjög sé óljóst hvernig eigi að raða í sætin.

„Þetta er ekki að fara fram fyrir opnum tjöldum hvernig á að standa að þessu máli og ég sé ekki tilganginn í því að leggja þetta fram á fundi, áður en fólk fær nokkurt ráð til þess að kynna sér málið,“ segir Áslaug.

„Það er mjög óvenjulegt að svona stór flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn er, ætli að fara að gera æfingar með þessum hætti og gefa mönnum ekki meiri tíma til þess að ræða aðferðirnar,“ segir hún.

Áslaug segir mjög mikla óánægju vera meðal sjálfstæðismanna sem hún hefur rætt við. Ekki bara í borginni heldur almennt meðal flokksmanna. Hún bendir á að Vörður hafi gert könnun meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir um tveimur árum síðan. Þar hafi komið skýrt fram að flokksmenn teldu prófkjör vera bestu leiðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×