Fótbolti

Vissi ekki hvers vegna Eiður Smári mætti ekki á æfingu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ef vel er að gáð má sjá Eið Smára fyrir miðju á myndinni. Hún er tekin á æfingu íslenska landsliðsins í Bern í morgun.
Ef vel er að gáð má sjá Eið Smára fyrir miðju á myndinni. Hún er tekin á æfingu íslenska landsliðsins í Bern í morgun. Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Eiður Smári Guðjohnsen virðist vera fallinn í ónáð hjá þjálfara Club Brugge í belgísku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Eiður Smári var ekki í leikmannahópnum í síðasta leik liðsins og var talið líklegt að hann myndi yfirgefa félagið. Félagaskiptaglugganum var lokað í gærkvöldi án þess að nokkur breyting yrði á stöðu mála hjá markahæsta manni íslenska A-landsliðsins frá upphafi.

Belgíski vefmiðillinn Nieuwsblad fjallar um stöðu Eiðs Smára hjá belgíska félaginu í dag. Er því slegið upp að Eiður æfi ekki með liðinu enda hafi hann ekki mætt á æfingu liðsins í dag. Vísað er í svör fjölmiðlafulltrúa félagsins sem hafi ekki svarað því hvers vegna Eiður hafi verið fjarverandi á æfingunni líkt og liðsfélagi hans Mémé Tchite.

„Þeim hefur í það minnsta ekki verið bannað að mæta á æfingar með aðalliðinu,“ sagði fjölmiðlafulltrúinn Klaus From við belgíska miðilinn.

Eiður Smári mætti hins vegar á æfingu í dag þótt það hafi ekki verið í Belgíu. Hann stendur nú, líkt og flestir landsliðsmenn Evrópu, í undirbúningi fyrir leiki í undankeppni HM 2014. Íslenska karlalandsliðið æfði nefnilega í Bern í dag líkt og fjallað var um á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×