Innlent

Kostnaður við fuglahús og flögg ekki svo mikill

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir að misvísandi kostnaðartölur yfir framkvæmdir á Hofsvallagötu hafi farið í umferð og verið til umfjöllunar á ýmsum miðlum síðustu daga.

„Þarna var til dæmis að finna kostnaðarliðinn flögg og fuglahús með alltof háum kostnaði. Ástæðan er sú að kostnaður við járnrör sem eru til að afmarka eyjar og bílastæði fóru með í þennan lið. Járnið var mun dýrara en fuglahús og flögg sem voru aðallega notuð til að skreyta járnið,“ segir Bjarni.

Bjarni segir kostnaðaráætlunina í frétt Vísis fyrr í dag vera nákvæma og standast að mestu leyti. Hann staðfestir sjö milljóna króna yfirborðsmerkingar á Hofsvallagötu með myndum af hjólum.

„Það er alveg nauðsynlegt að fólk viti hvað hlutirnir kosta. Þetta kostar allt saman skildinginn. Hver bekkur kostar til dæmis 150 þúsund krónur og við tökum nokkra inn í hverri viku í lagfæringu því það er búið að krota á þá og skemma með einhverjum hætti. Það má gjarnan flytja oftar fréttir af því hvernig fólk gengur um borgina sína með óheyrilegum kostnaði fyrir skattborgara,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×