Innlent

Vilja að stjórnvöld efni loforð

Mynd tengist frétt ekki beint
Mynd tengist frétt ekki beint
Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara boða til hvatningarfundar á Austurvelli á þriðjudag í næstu viku.

Markmiðið með honum er að hvetja stjórnvöld til að halda áfram að efna loforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar um að afnema kjara- og réttindaskerð­ingar á greiðslum til eldri borgara og öryrkja árið 2009.

Á sumarþingi afturkallaði Alþingi tvær af þeim sex skerðingum sem gerðar voru á kjörum þessara hópa. Vonast er til þess að með góðri hvatningu á fundinum muni stjórnvöld standa við loforð um að afnema allar sex skerðingarnar.

Fundurinn hefst klukkan þrjú.

„Kjaranefnd LEB hefur sýnt fram á að á síðustu fjórum árum hafa kjör eldri borgara rýrnað um 20% og nýbirt skýrsla sem Talnakönnun gerði  fyrir ÖBÍ sýnir að á sama tíma og almenn launavísitala hækkaði um 23,5% og verðbólga var 20,5% hækkuðu heildartekjur öryrkja um 4,7%. Þar kemur einnig fram að bætur almannatrygginga til öryrkja árin 2008-2013 hafa ekki náð að halda í við verðlagshækkanir, almenna launaþróun né hækkun lægstu launa og er munurinn gríðarlegur. Bilið er stöðugt að breikka og er nú svo komið að lægstu laun hafa hækkað nær tvöfalt á við bætur öryrkja.

Þetta undirstrikar nauðsyn þess að skerðingarnar sem gerðar hafa verið á kjörum eldri borgara og öryrkja verði leiðréttar afturvirkt. Það er ánægjuefni að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa áréttað eftir kosningar að staðið verði við gefin loforð um leiðréttingu. Við væntum þess að í fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram 1. október næstkomandi megi sjá efndir þeirra orða.  ÖBÍ og LEB hvetja félagsmenn sína og allan almenning til að mæta á fundinn á Austurvelli og taka þátt í að hvetja þingheim til góðra verka,“ segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×