Innlent

Ráfaði einn í marga klukkutíma

Hanna Rún Sveirrisdóttir og Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Maður á níræðisaldri, sem fannst liggjandi á bílastæði við Hrafnistu á þriðja tímanum í fyrrinótt,  er látinn. Aðstandendur furða sig á að starfsfólk þjónustuíbúðarinnar, þar sem hann bjó, hafi ekki tekið eftir því að hann hafi horfið um kvöldið.

Talið er að maðurinn hafi dottið niður af steinvegg og  fallið um einn metra. Við fallið hlaut hann alvarleg meiðsli sem svo leiddu hann til dauða. Maðurinn, sem hefur verið með heilabilun í nokkur ár, bjó í þjónustuíbúð aldaðra við Norðurbrún.

Jóhanna Eiríksdóttir, stjúpdóttir mannsins, furðar sig á að starfsfólk hafi ekki tekið eftir því að maðurinn hafi horfið um kvöldið, en á vef Norðurbrúnar kemur fram að öryggiskerfi sé í húsinu og vakt allan sólarhringinn.

Húsnæði Norðurbrúnar lokar alltaf klukkan tólf á miðnætti, en samkvæmt upplýsingum aðstandanda fannst maðurinn ekki fyrr en klukkan þrjú í fyrrinótt. Þá var líkamshiti hans kominn niður í 33 gráður.

Fyrst þegar fréttastofa hafði samband við starfsfólk Norðurbrúnar vörðust þau allra svara og sögðust ekki kannast við manninn, en hann er skráður með lögheimili þar. Síðar kom í ljós að starfsfólk taldi sig vera bundið þagnarskyldu um málið.

Jóhanna og aðrir aðstandendur vilja að að farið verði ofan í saumana á því hvernig þetta gat gerst, og að koma verði í veg fyrir að svona lagað gerist aftur.

Illa gekk að hafa samband við starfsfólk Norðurbrúnar við vinnslu fréttarinnar, en nú rétt fyrir fréttir tjáði forstöðukonan sig við fréttastofu. Þar kom fram að síðustu samskipti sem starfsfólk hafi við manninn hafi verið klukkan tíu þegar hann fékk lyfin sín.

Þjónustusamingur mannsins við Norðurbrún kveður á um reglulegt innlit. Forstöðukonan gat ekki tjáð sig um hversu tíð þessi innlit eru, en greinilegt er að enginn hafði athugað með hann í yfir fimm klukkutíma. Hún segir að fundað verði um málið eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×